Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aðeins einn línubátur landar í Suðurnesjahöfnum
Fimmtudagur 27. september 2018 kl. 16:46

Aðeins einn línubátur landar í Suðurnesjahöfnum

– Sóley Sigurjóns GK hættir á rækjuveiðum

Höfnin í Keflavík má muna fífil sinn fegri. Það var á árum áður mjög mikið líf í Keflavíkurhöfn, núna í dag þá er sjaldséð að bátur sjáist í höfninni. Fyrir utan þegar makrílvertíðin er í gangi, þá er mjög mikið líf í höfninni. Þó detta þar inn einn og einn bátur eða togari og ég rak augun í að togarinn Sóley Sigurjóns GK sem Nesfiskur á og gerir út lá þar við bryggju.
  
Það að togarinn var kominn til Keflavíkur benti til þess að þeir væru hættir á rækjuveiðum. Sóley Sigurjóns GK kom með 44 tonn í land og af því þá var rækja 14 tonn. Sóley Sigurjóns GK og hinn togari Nesfisks, Berglín GK, hafa síðan snemma í maí stundað rækjuveiðar fyrir norðurlandinu og landað afla sínum á Siglufirði. 
 
Öll rækjan af báðum togurunum hefur verið unnin á Hvammastanga í rækjuverksmiðju Meleyrar ehf., sem Nesfiskur á. Sóley Sigurjóns GK hefur landað 425 tonnum af rækju í nítján löndunum og mest 34 tonnum.  Berglín GK hefur landað 291 tonni af rækju í nítján löndunum og mest 29,5 tonnum í löndun. Núna eru báðir togarnir komnir á hefðbundnar botnfiskveiðar og eru, þegar þetta er skrifað, á Halanum sem eru mið út af Vestfjörðum. Þeir hafa undanfarin ár landað á Ísafirði og er þá aflanum ekið suður til vinnslu.
Og talandi um að aka með aflann, þá stunda útgerðir í Grindavík; Stakkavík ehf., Þorbjörn ehf., Vísir ehf. og Einhamar ehf., það að láta báta sína landa í höfnum á Norður- og Austurlandi og er svo aflanum ekið suður til vinnslu. Þetta eru gríðarlega miklir fiskflutningar.
 
Hjá Vísi ehf. hefur Jóhanna Gísladóttir GK landað 276 tonnum í þremur löndunum á Sauðárkróki og Grundarfirði. Páll Jónsson GK 244 tonnum í þremur löndunum og þar af 87 tonnum á Ólafsvík. Af þeim afla fóru 54 tonn til Grindavíkur.  Krístín GK 235 tonn í þremur löndunum á Sauðárkróki, þar er líka Fjölnir GK með 213 tonn í þremur löndunum.  
Þorbjörn ehf. þá er Sturla GK með 254 tonn í fjórum löndunum, Valdimar GK 250 tonn í fjórum og Hrafn GK 193 tonn í þremur löndunum. Allir þessir bátar landa afla sínum á Siglufirði. Af þessum afla hjá bátunum er þorskinum ekið til vinnslu í Grindavík en restin er seld á Fiskmarkaði Siglufjarðar.
 
Hjá Stakkavík var Óli á Stað GK með 93 tonn í nítján róðrum sem er landað á Skagaströnd og Siglufirði.  Rán GK er með 13,3 tonn í fimm löndunum á Skagaströnd. Rán GK er balabátur og það þýðir að aka þarf með beitta bala norður. Guðbjörg GK er líka á Skagaströnd og með 87 tonn í sautján löndunum.
Einhamar er með bátana sína á Stöðvarfirði og hefur haft undanfarin ár. Gísli Súrsson GK með 59 tonn í fimmtán löndunum. Auður Vésteins SU 58 tonn í fjórtán og Vésteinn GK 70 tonn í fimmtán löndunum. Einhamar á sinn eigin vörubíl og ekur aflanum af bátunum sínum sjálfur.
 
Þetta þýðir að enginn línubátur er að landa í höfnum á Suðurnesjunum. Ja, nú nema einn, því Bjössi skipstjóri á Andey GK, sem er balabátur í eigu Stakkavíkur, hefur verið að róa frá Sandgerði og hefur gengið nokkuð vel hjá honum. Hann hefur landað fimmtán tonnum í fimm róðrum.  
 
Gott gengi Andeyjar GK getur gert það að verkum að hinir línubátarnir, og þá aðalega minni bátarnir, koma fyrr suður til veiða enn vanalegt er. Svo núna er bara að bíða og sjá hver kemur fyrstur og slæst í hóp með Andey GK.
 
Gísli Reynisson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024