Aðeins 15 útlendingar kusu í Sandgerði
Áhugi íbúa í Garði og Sandgerði af erlendum uppruna virðist hafa verið lítill í kosningu um sameiningu Garðs og Sandgerðis. Þannig upplýsti fulltrúi í kjörstjórn Sandgerðis á fésbókinni í kvöld að þar hafi rétt um 15 íbúar af erlendum uppruna tekið þátt í sameiningarkosningunni sem fram fór í gær. Stór hópur fólks af erlendum uppruna, sem búið hafa í öðru hvoru sveitarfélaginu í 5 ár eða lengur, höfðu kosningarétt. Víkurfréttir hafa ekki upplýsingar um kosningaþátttöku fólks af erlendum uppruna í Garði.
Í Garði samþykktu 71,5% íbúa sameiningu Garðs og Sandgerðis en 28,5% voru á móti. Á kjörskrá voru 1.134 og kusu 601 eða 53% þeirra sem voru á kjörskrá. Í Sandgerði var sameiningin samþykkt með 55,2% atkvæða en 44,8% voru á móti. Á kjörskrá voru 1.200 manns og kusu 662 eða 55,2%.