Aðbúnaður slökkviliðsins í Sandgerði aldrei betri
Reynir Sveinsson, slökkviliðsstjóri í Sandgerði, segir aðbúnað slökkviliðsins aldrei hafa verið betri en einmitt nú. Á fundi bæjarráðs Sangerðisbæjar í gær kom fram að framkvæma þyrfti mælingar á afkastagetu brunahana í sveitarfélaginu þegar breytingum á vatnsveitu væri lokið.
„Fyrir skemmstu kom fulltrúi Brunamálastofnunar til okkar og gerði nokkrar athugasemdir. Við brugðumst fljótt við og nú í síðustu viku fengum við m.a. til okkar sverari brunaslöngur og mónitor eða kastbyssu sem afkastar um 1900 lítrum af vatni á mínútu,“ sagði Reynir í samtali við Víkurfréttir.
Um 22 sjálfboðaliðar eru til taks hjá slökkviliðinu í Sandgerði en Reynir segir að hægt verði að framkvæma mælingarnar á brunahönum í bæjarfélaginu þegar þiðnar. „Vatnskerfið í Sandgerði er margfalt betra en áður. Undanfarin 3-4 ár hafa staðið yfir endurbætur á vatnskerfinu og er ég þess fullviss að þegar mælingar á nýju lögnunum og brunahönunum í bæjarfélaginu verða gerðar verða þær mun betri en fyrri mælingar,“ sagði Reynir en Brunamálastofnun hefur þegar óskað eftir því að fá afrit af mælingunum þegar þær verða framkvæmdar.
Reynir segir einingu um það innan slökkviliðsins í Sandgerði að vera áfram sjálfstæð eining og bætir við að það sé öruggara að sameinast ekki slökkviliðinu í Keflavík. „Við leggjum áherslu á að öryggið innanbæjar sé sem mest á fyrstu mínútunum þegar bruna ber að. Viðbrögð okkar hafa verið góð hingað til og oftar hefur það verið raunin að slökkviliðið í Keflavík hefur þurft á okkar aðstoð að halda en öfugt en þetta er á endanum pólitísk ákvörðun,“ sagði Reynir.
Nýlega voru fjarskiptatæki, trefjakútar og gallar endurnýjaðir svo aðbúnaður slökkviliðsins í Sandgerði hefur sjaldan eða aldrei verið betri. Brunamálastofnun vill þó fá afrit af mælingu brunahananna innan þriggja vikna segir í bókun bæjarráðs í gær en hvenær sem mælingin verður gerð er Reynir þess fullviss að þær tölur sem þar munu koma fram verði mun betri en áður.
[email protected]