Aðalfundur SSS: Samvinna sveitarfélaga í brennidepli
Samvinna sveitarfélaga á Suðurnesjum eru í brennidepli á aðalfundi Sambanda sveitarfélaga á Suðurnesjum sem stendur nú yfir í húsnæði Keilis á Vallarheiði. Þar eru saman komnir sveitarstjórnarmenn, þingmenn og aðrir til að ræða mál tengd Suðurnesjum.Í niðurlagi formanns stjórnar SSS, Steinþórs Jónssonar, sagði hann að hann teldi að endurskoða þyrfti samstarfið frá grunni „og jafnvel hætta því í núverandi mynd, t.d. í kjölfar frekari sameiningar sveitarfélaga.“
Fjölmargar ályktanir voru samþykktar í morgun, þar á meðal var skorað á stjórnvöld að fjármunir sem falla til ríkissjóðs frá Suðurnesjum, þar á meðal vegna sölunnar á Hitaveitu Suðurnesja og fjármagnstekjur vegna sölu fasteigna á gamla varnarsvæðinu, renni til uppbyggingar á svæðinu. Þá lýsir aðalfundurinn yfir fullum stuðningi við fyrirhuguð áform um byggingu álvers í Helguvík. Hvað varðar samgöngumál leggur fundurinn áherslu á að staðið yrði við loforð um að lokið yrði við gerð Suðurstrandarvegar, tvöföldun Reykjanesbrautar verði framhaldið að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og inn í Hafnarfjörð. Einnig var ályktað að byggingu nýrra höfuðstöðva lögreglunnar á Suðurnesjum, yrði lokið ekki síðar en árið 2009, stjórnvöld bregðist við vanda vegna skerðinga á þorskaflaheimildum sem og bágri stöðu hafna landsins. Einnig var ítrekað að efla þurfi heilsugæslu á svæðinu og að fyrirheit ríkisvaldins um nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ verði efnt.
Nánari fréttir af fundinum síðar...
VF-mynd/Þorgils






