Aðalfundur SSS: Krefst þess að ríkisstjórn afturkalli ákvörðun umhverfisráðherra
Aðalfundur SSS sem haldinn var í gær í Reykjanesbæ samþykkti álykun um atvinnumál þar sem skorað er á ríkisstjórn að afturkalla ákvörðun umhverfisráðherra varðandi raforkulagnir um Suðurnes.
Ályktunin hljóðar svona: „Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ 17. október 2009, skorar á Alþingi og ríkisstjórn að tryggja eðlilegan framgang atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum og standi vörð um fiskveiðar og vinnslu. Aðalfundurinn lýsir áhyggjum sínum á breytingum sem gætu sett atvinnugreinina í fullkoma óvissu.
Aðalfundurinn krefst þess að ríkisstjórnin afturkalli nú þegar ákvörðun umhverfisráðherra sem tefur vinnu við raforkulagnir um Suðurnes. Uppbygging atvinnulífsins á Suðurnesjum er háð línulögnum og öll töf á lagningu þeirra er atlaga að uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu.
Mesta atvinnuleysi á landinu er á Suðurnesjum, auk þess sem meðaltekjur íbúa á svæðinu eru undir landsmeðaltali. Þörfin fyrir uppbyggingu og ný, vel launuð störf er því hrópandi. Fundurinn krefst þess að ríkisstjórn og Alþingi leggist á árarnar með sveitarstjórnarmönnum, verkalýðsfélögum, atvinnurekendum og íbúum á svæðinu og stuðli að því að ný atvinnutækifæri líti dagsins ljós.
Ef ráðherrar ríkisstjórnarinnar vinna með Suðurnesjamönnum, geta þúsundir manna fengið atvinnu að nýju.“