Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aðalfundur SSS ályktar
Mánudagur 12. nóvember 2007 kl. 18:07

Aðalfundur SSS ályktar

Aðalfundur SSS var haldinn um helgina. Þar voru samþykktar margvíslegar ályktanir um málefni sem tengjast Suðurnesjum þær fylgja hér að neðan:


Ályktun um byggingu álvers í Helguvík
Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007 lýsir fullum stuðningi við fyrirhuguð áform um byggingu álvers í Helguvík. Í kjölfar stærstu hópuppsagna í sögu þjóðarinnar, við brotthvarf varnarliðsins á síðasta ári og skerðingu þorskkvóta í ár er brýnt að sterkar stoðir séu settar undir atvinnulíf á svæðinu.
Með álversframkvæmdunum eykst framboð vel launaðra starfa jafnt fyrir karla sem konur og stöðugleiki skapast í atvinnumálum á Suðurnesjum.
Staðsetning í Helguvík þykir henta starfsseminni einstaklega vel og orkufyrirtæki telja sig geta lagt til umhverfisvæna orku sem þarf til að knýja álverið. Skipulagsstofnun segir m.a. í áliti sínu um  mat á umhverfisáhrifum að álverið muni ekki valda verulega neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag.  Að því gefnu að öllum ytri skilyrðum sé fullnægt hljóta afskipti stjórnvalda fyrst og fremst að miða að því að liðka til fyrir framvindu þessa verkefnis.  Fundurinn ítrekar að allra umhverfissjónarmiða sé gætt við tilhögun verkefnisins og að álverið verði til fyrirmyndar á heimsvísu í slíku tilliti.

Ályktun um  þróun atvinnumála á Keflavíkurflugvelli
Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007  telur brýnt að fleiri sterkar stoðir séu settar undir atvinnulíf á svæðinu í kjölfar stærstu hópuppsagna í sögu þjóðarinnar.
Fundurinn leggur áherslu á að þekking starfsmanna á sérfræði og tæknistörfum á Keflavíkurflugvelli í kringum loftvarnir, flugbrautir og almenna flugþjónustu verði áfram á svæðinu. Gríðarlegar fjárfestingar eru í búnaði og tækjum sem okkur ber að nýta og þessi starfsemi þarf að þróast og eflast til að takast á við ný og aukin verkefni í framtíðinni.
Þá fagnar aðalfundurinn að sameina eigi ýmsar stofnanir sem koma til með að reka þessa starfsemi í framtíðinni.
Mikilvægt er að fjármunir vegna hreinsunar á fyrrum varnarsvæði verði tryggðir og að svæðið  verði gert vistvænt. Tryggt sé að tekjur af flugstarfsemi á Keflavíkurvelli verði nýttar á alþjóðaflugvellinum.

Ályktun um verkaskiptingu og fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga
Aðalfundur SSS, haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007, skorar á ríkisvaldið og Samband íslenskra sveitarfélaga að hefja nú þegar heildarendurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og skýra línur í þeim verkefnum þar sem málaflokkar eru á höndum beggja aðila.  Samhliða verði tekjustofnar og fjármál sveitarfélaga tekin til endurskoðunar með það að markmiði að styrkja fjárhag sveitarstjórnarstigsins í landinu þannig að sveitarfélögin geti sinnt lögbundnum skyldum um að veita öllum íbúum sínum þjónustu. Fundurinn telur að með einhliða setningu ýmissa laga og reglugerða hafi verið gerðar auknar kröfur til sveitarfélaganna án þess að tekjustofnar hafi komið á móti og krefst fundurinn þess að lagasetning Alþingis verði kostnaðarmetin og fjármagn fylgi með nýjum verkefnum.

Ályktun um nýtingu fjármagns á Suðurnesjum
Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007 leggur ríka áherslu á  að þeir fjármunir sem urðu til vegna sölu ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja,  fjármagnstekjuskatts vegna söluandvirðis og sölu ríkisins af eignum á Keflavíkurflugvelli renni til uppbyggingar á Suðurnesjum  þar sem mörg krefjandi verkefni eru enn óunnin. Áhersla er lögð á að samráð sé haft við sveitarfélögin á Suðurnesjum við val á verkefnum og úthlutun fjármagns.

Ályktun um vaxtarsamning
Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007, ítrekar að ráðist verði í gerð vaxtarsamnings milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum og ríkisvaldsins. Slíkir samningar hafa í auknum mæli verið gerðir við aðra landshluta og hefur reynsla af þeim verið góð. 
Fundurinn leggur áherslu á að stjórn SSS hefji nú þegar viðræður við iðnaðarráðuneytið um gerð vaxtarsamnings og krefst þess að jafnræði ríki milli landshluta.

Ályktun um samgöngumál
Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007  leggur áherslu á við Alþingi að staðið verði við áður gefin loforð og að lokið verði við gerð Suðurstrandarvegar eigi síðar en 2009. Vegurinn er nauðsynleg tenging á milli atvinnusvæða og um leið mikilvæg vegtenging innan Suðurkjördæmis.
Fundurinn skorar á yfirvöld að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fitjum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og frá Hvassahrauni til Hafnarfjarðar auk ráðstafanna vegna reiðvega og umferðar hjólreiðafólks. Einnig að unnið verði að mislægum gatnamótum og vegtengingum við nýja byggð á Vallarheiði, áður herstöð, til að fyrirbyggja mikla slysahættu á Reykjanesbrautinni sem skapast þegar svæðið er tekið til almennings nota.
Þá leggur aðalfundurinn áherslu á að gerð Ósabotnavegar með bundnu slitlagi ljúki eigi síðar en 2008.  Fundurinn telur einnig mikilvægt að ljúka við breikkun á Grindavíkurvegi,  Sandgerðisvegi og að hafist verði handa við breikkun Garðskagavegar og Vogaafleggjara.  Mikil aukning umferðar á þessum vegum kallar á lausn hið fyrsta.  Þá vill fundurinn benda á mikilvægi þess að lýsa upp  stofnvegi á Suðurnesjum.
Aðalfundurinn skorar á yfirvöld að tryggja almenningssamgöngur á milli bæja á Suðurnesjum og til höfuðborgarsvæðisins.
Aðalfundur SSS fagnar fækkun slysa á Reykjanesbrautinni eftir að fyrsti hluti hennar var tvöfaldaður og leggur áherslu á að umferðaröryggismál hafi forgang í vegaframkvæmdum.

Ályktun um nýjan framhaldsskóla á Suðurnesjum
Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007  telur tímabært að hugað verði að framtíðarþörf Fjölbrautaskóla Suðurnesja hvað varðar stækkunarmöguleika og að umræða vegna nýrra framhaldsskóla hefjist sem alla fyrst.  Þá má í þessu samhengi minna á þá miklu fólksfjölgun sem á sér stað á svæðinu öllu.  Fundurinn telur brýnt að hefja vinnu að stofnun framhaldsskóla í Grindavík auk þess sem áfram verði staðið að uppbyggingu framhaldsskólastarfs á Vallarheiði.

Ályktun vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar
Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007, ítrekar að vegna niðurskurðar í þorskveiði á þessu kvótaári sé mikilvægt að ríkisvaldið vinni með sveitarfélögunum á Suðurnesjum við eflingu atvinnulífs og uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra.
Kvótaskerðingin á Suðurnesjum er með því mesta sem einstök landssvæði verða nú fyrir.
Fundurinn skorar á ríkistjórn Íslands og þingmenn kjördæmisins að ef farið verður út í frekari mótvægisaðgerðir en hafa verið boðaðar, munu þær ganga jafnt yfir öll sveitarfélög á landinu í hlutfalli við skerðinguna.

Ályktun um löggæslumál
Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007 telur mjög mikilvægt að undirbúningur að byggingu húsnæðis fyrir aðalstöðvar lögreglunnar á Suðurnesjum verði flýtt og bygging þess verði að fullu lokið eigi síðar en árið 2009.  Þar með verði starfssemin komin undir eitt þak en húsnæðismálin nú eru í miklum ólestri. 
Verkefni lögreglunnar á Suðurnesjum eru enn að aukast með fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll og auknum umsvifum þar.  Ljóst er að treysta þarf rekstrargrundvöllinn þannig að verkefnin sem tengjast flugstöðinni hafi ekki þau áhrif að embættið hafi ekki styrk til að sinna sem skyldi þjónustu og lögregluverkefnum annars staðar.  Þá hafa verkefnin einnig stóraukist vegna fjölgunar íbúa á Suðurnesjum.  Algjört skilyrði er að rekstrargrunsvöllurinn sé þannig að lögreglan hafi a.m.k. sama fjölda lögreglumanna og var fyrir sameiningu lögreglunnar  á Keflavíkurflugvelli og lögreglunnar í Keflavík, en í dag vantar mikið upp á að svo sé. 

Ályktun um heilbrigðis- og öldrunarþjónustu á Suðurnesjum
Aðalfundur SSS, haldinn í hátíðarsal Keilis, Reykjanesbæ, 10. nóvember 2007, skorar á heilbrigðisráðherra að tryggja örugga og góða þjónustu HSS við alla íbúa Suðurnesja. Gríðarleg fjölgun íbúa hefur verið á Suðurnesjum á síðustu árum og virðist ekkert lát vera á. Opinber þjónusta á borð við heilsugæslu og sjúkrahússtarfsemi verður að taka mið af slíkum samfélagsbreytingum og auka starfsemi stofnunarinnar samhliða fjölgun íbúa bæði í aðalstöðvum í Reykjanesbæ sem og í útibúum/selum í öllum öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Í því samhengi er sólarhringsvakt á skurðstofum grundvallarkrafa sveitarstjórna á Suðurnesjum. Jafnframt er nauðsynlegt að stofnunin fái fjármagn til þess að viðhalda fasteignum sínum þannig að þær séu umhverfi sínu og samfélagi skammlausar.
Þrátt fyrir fyrirheit ríkisvaldsins um nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ hafa mál lítið sem ekkert þokast áfram á síðustu tveimur árum. Hönnun og bygging hjúkrunarheimilis er í algjörri óvissu á meðan biðlistar lengjast og vandamálin aukast. Íbúar Suðurnesja geta ekki sætt sig við ítrekaða frestun framkvæmda og skorar aðalfundur SSS á nýjan heilbrigðisráðherra að koma málum í þann farveg að framkvæmdir geti hafist strax. Sveitarstjórnir á Suðurnesjum lýsa sig tilbúnar til þess að koma að samningum við ríkisvaldið um fjármögnun og framkvæmdir þannig að uppbygging geti orðið hraðari en ella yrði. Þá leggur aðalfundurinn áherslu á áframhaldandi og vaxandi starfsemi Víðihlíðar í Grindavík og Garðvangs í Garði og að lagfæringar verði gerðar, þannig að heimilin uppfylli eðlilegar kröfur um rými og aðstöðu heimilismanna.
Aðalfundurinn ítrekar að nú liggi fyrir nægjanleg reynsla varðandi reynslusveitarfélögin um rekstur heilsugæslu og ekkert til fyrirstöðu að heimila þeim sveitarfélögum, sem þess óska, að yfirtaka rekstur heilsugæslu.

Ályktun um rekstur og fjárhagsstöðu hafna
Aðalfundur SSS, haldinn í hátíðarsal Keilis, Reykjanesbæ, 10. nóvember 2007, skorar á ríkisvaldið að bregðast þegar við miklum fjárhagsvanda hafna landsins.  Rekstur hafnasjóða vítt og breytt um landið er óviðunandi og hafa safnast upp miklar skuldir.
Í ljósi niðurskurðar á aflaheimildum á þessu kvótaári, er nauðsynlegt að ríkisvaldið mæti miklum rekstrar og skuldavanda hafnanna með sérstöku framlagi til þeirra.  Lögð er áhersla á að í sértækum aðgerðum verði mið tekið af áhrifum vegna kvótaskerðingar á löndunarhafnir og sveitarfélög á svæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024