Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aðalfundur Sparisjóðsins í Keflavík: Lending í stjórnarmálinu
Laugardagur 13. mars 2004 kl. 18:39

Aðalfundur Sparisjóðsins í Keflavík: Lending í stjórnarmálinu

Lending varð í stjórnarmáli Sparisjóðsins í Keflavík en fyrir aðalfundinn kom fram annar listi gegn sitjandi stjórn. Samkomulag varð um einn lista sem hlaut einróma kosningu á aðalfundinum í Stapa í gærkvöld.
Ný stjórn er skipuð þeim Guðjóni Stefánssyni, Kristjáni Gunnarssyni og Karli Njálssyni en þeir voru kjörnir af stofnfjáraðilum. Tveir fulltrúar koma frá sveitarfélögunum en þeir eru Þorsteinn Erlingsson frá Reykjanesbæ og Óskar Gunnarsson frá Sandgerði. Varamenn voru kjörnir þeir Árni Björgvinsson, Eðvarð Júlíusson og Eysteinn Jónsson.

Benedikt Sigurðsson, fráfarandi stjórnarformaður flutti  skýrslu stjórnar og Geirmundur Kristinsson fór yfir stöðu mála og þróun í stofnuninni síðastliðið ár. Eins og áður hefur komið fram var hagnaður á sl. ári rúmar sexhundruð milljónir króna.
Geirmundur upplýsti að Sparisjóðurinn væri í viðræðum við annan sparisjóð en það væri mikilvægt að styrkja samstarf sparisjóðanna enn frekar en einnig myndi það styrkja stöðu Sparisjóðsins í Keflavík að geta sameinast öðrum. Tómas Tómasson, fyrrverandi Sparisjóðsstjóri stóð upp að venju og sagði að velgengni Sparisjóðsins í Keflavík væri starfsfólksins "á gólfinu" eins og hann orðaði það. Því væri það grundvallaratriði að stofnunin héldi áfram að vaxa og dafna. Tómas sagði að hrikt hefði í samstarfi sparisjóðanna en það væri lykilatriði að samstarfið væri mikið og gott annars myndi stefna í óefni, - og myndi stytta lífdaga sumra sjóðanna. Tómas sagði að klofningsframboð til stjórnar væri ekki til að styrkja stöðu sparisjóðsins. Hann sagðist líka hafa áhyggjur af minnkandi vaxtamun og kostnaðarhlutfalli.
Tvöhundruð og fimm stofnfjáraðilar mættu í Stapann en búist var við kosningum eftir að nýr listi kom fram. En til kosninga kom ekki eftir að aðilar komust að samkomulagi um nýja stjórn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024