Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 22. mars 2000 kl. 14:10

Aðalfundur Samflotsins lýsir yfir óánægju með Launanefnd sveitarfélaga

Aðalfundur Samflots bæjarstarfsmanna, sem var haldinn í Vestmannaeyjum á dögunum, lýsir yfir mikilli óánægju með Launanefnd sveitarfélaga og skorar á bæjar- og sveitastjórnir í landinu að gefa Launanefnd sveitarfélag ekki fullnaðarumboð til kjarasamningagerðar. Frá þessu var sagt í Morgunblaðinu. Starfsmenn Reykjanesbæjar eru óánægðir með núverandi launakerfi og íhuga jafnvel að segja sig úr Samfloti, og semja sjálfir við sveitarfélagið. Eftir síðustu kjarasamninga höfðu bæjar- og sveitarfélögin frjálsar hendur til þess að semja við starfsmenn sína útfrá þeim grunni sem samningarnir settu. Launanefndin vill ekki að málin fari í þann farveg aftur eftir þessa samningalotu og telur Samflotið það óásættanlegt. Segir meðal annars í ályktun aðalfundar að í fullnaðarumboði Launanefdarinnar felist afsal á öllu því sem getur kallast getur sjálfstæði starfsmannastefna einstakra sveitarfélaga. Innan Samflots eru starfsmenn flestra bæjar- og sveitarfélaga á landinu. Kjarasamningar þeirra verða lausir þann 1. mai og var Samflotið búið að semja við ríkið um að samningarnir yrði framlengdir fram til næsta hausts svo þeir yrðu lausir á sama tíma og hjá ríkisstarfsmönnum. Sú framlenging átti að fela í sér 3% launahækkun. Launanefnd sveitarfélaga samþykkti þessa framlengingu ekki. Í ályktun aðalfundar Samflotsins er þessu mótmælt og er því haldið fram að launastefna Launanefndarinnar hafi verið ómarkviss og afar óskýr. Hjörtur Zakaríasson, bæjarritari Reykjanesbæjar, sagði að Starfsmannafélag Reykjanesbæjar væri nú í Samfloti en raddir væru uppi um að ganga úr því. „Sumir telja að það gefi meiri möguleika að semja beint við bæjarfélagið, en töluverðrar óánægju hefur gætt á meðal starfsmanna með núverandi launakerfi. Hvorki bæjarráð né bæjarstjórn hafa þó fjallað um málið enda höfum við ekki fengið neitt í hendurnar ennþá.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024