Áætlanir um stórfelldan niðurskurð hjá Varnarliðinu
Yfirmenn allra deilda innan Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hafa síðustu vikur unnið að áætlanagerð sem gerir ráð fyrir stórfelldum niðurskurði í fjárframlögum til reksturs varnarstöðvarinnar. Háttsettur yfirmaður innan varnarsvæðisins sem starfað hefur hjá Varnarliðinu í áratugi sagði í samtali við Víkurfréttir að verið væri að undirbúa brottför stórs hluta Varnarliðsins. Víkurfréttir hafa undir höndum gögn sem sýna niðurskurðartillögur um allt að 30%, auk þess 18% niðurskurðar sem nú þegar er í gangi og sagði yfirmaðurinn sem ekki vill láta nafns síns getið að það væri í hans huga ekki spurning um hvort leggja ætti stóran hluta starfseminnar niður, heldur hvenær skipunin komi. „Í minni tíð hafa aldrei borist fyrirmæli um að skera niður reksturinn eins og nú er unnið að. Það eina sem beðið er eftir er að okkur verði sagt að koma tillögunum í framkvæmd. Það er verið að tala um að skera niður um 30% hjá öllum deildum og við þann niðurskurð minnkar þjónustustigið mjög mikið.“
Að sögn yfirmannsins er mikill uggur meðal starfsmanna og andrúmsloftið þrungið. „Það liggur í loftinu að það er eitthvað mikið að fara að gerast, það bara veit enginn hvað það verður.“
Yfirmaðurinn segir að þegar unnið hafi verið að niðurskurðartillögum sem rekja má til nýafstaðinna uppsagna þá hafi komið skýr fyrirmæli frá æðstu yfirmönnum Varnarliðsins að segja ætti upp fólki. „Þegar unnið var að niðurskurði um þessi 18% unnu yfirmenn niðurskurðartillögur sem miðuðu að hagræðingu í rekstri. Það síðasta sem yfirmenn vilja gera er að grípa til uppsagna. En þegar búið var að skila inn tillögum að niðurskurði var þeim tjáð að þeir ættu að segja upp fólki, það væri ekki nægjanlegt að koma með tillögur að hagræðingu í rekstrinum. Ég veit til þess að einum þeirra sem vann að niðurskurðartillögunum var sagt af einum æðsta yfirmanni varnarliðsins að þeir vildu sjá hausa fjúka.“
Yfirmaðurinn er mjög ósáttur við hvernig staðið er að málum innan varnarliðsins. „Það er ömurlegt hvernig komið er fram við starfsfólkið hér. Margir þeirra sem sagt var upp störfum hafa unnið mjög lengi hjá varnarliðinu og framkoma yfirmanna í þeirra garð er ógeðfelld. Ég vildi koma þessum upplýsingum á framfæri til fjölmiðla einungis vegna þess að ég vil að stjórnvöld fái ráðrúm til að bregðast við, því eins og ég segi þá lít ég þannig á málin að það sé bara spurning um hvenær meginhluti starfsemi varnarliðsins verði fluttur burt.“
Ljósmynd: Mats Wibe Lund