A330neo í reynsluflugi til Keflavíkur
Ný tegund af vél frá Airbus lendir í Keflavík á leið milli stórra flugvalla
A330neo, sem er ný breiðþota frá Airbus, lenti í Keflavík í morgun í fyrsta skipti og var flugið beint frá höfuðstöðvum Airbus í Toulouse. Vélin staðnæmdist hér í um þrjár klukkustundir áður en flogið var áfram til Chicago sem var næsti áfangastaður vélarinnar. Flugið er þáttur í lokahluta reynslufluga og prófana sem leiða munu til vottunar á þessari nýjustu breiðþotu flugvélaframleiðandans í miðstærð á þriðja ársfjórðungi ársins. Samtals heimsækir þotan meira en tíu stóra flugvelli og leggur að baki 150 tíma í reynslufluginu.
Flugvélin sem lenti á Kefavíkurflugvelli í morgun er af gerðinni A330-900 og er máluð í litum portúgalska flugfélagsins TAP Air Portugal sem er fyrsta flugfélag í heimi til að taka hana í notkun. Keflavíkurflugvöllur er eðlilegur viðkomustaður, bæði með hliðsjón af stærð vallarins og því að WOW air byggir flugflota sinn á Airbus vélum.
WOW air verður þriðja flugfélagið í heimi til að að taka A330neo þotuna í notkun, seinna á þessu ári og hefur þotan þegar verið máluð í WOW air litunum. WOW air valdi vélina vegna þess hve rekstrarkostnaður hennar er lágur og nýting á eldsneyti góð.
A330neo er yngsti meðlimur í A330 metsölufjölskyldu Airbus. Hún er til í tveimur gerðum, A330-800 og A330-900. A330-800 er með sætaskipan fyrir 250 farþega á þremur farrýmum og allt að 400 sæti ef einungis er eitt almennt farrými. A330-900 er stærri og býður upp á aðstöðu fyrir um 300 farþega á þremur farrýmum og allt að 440 ef raðað er þétt á eitt farrými.
A330neo vélin er búin Rolls-Royce Trent 7000 hreyflum af nýrri kynslóð og nýjum og endurbættum vængjum. Þá hefur notkun á léttari samsettu efni verið aukin. Þessar endurbætur leiða til um 25% minnkunar á eldsneytisnotkun miðað við eldri kynslóð flugvéla af svipaðri stærð. Þessir kostir ásamt aðlaðandi kostnaðarverði leiða til þess að A330neo vélin er samkeppnishæfasta vélin og sú sem skilar hlutverki sínu best í sínum stærðarflokki.
A330neo vélin hefur verið hönnuð til þess að sinna hlutverki sínu vel hvort sem um er að ræða styttri eða lengri flug. Flugdrægni A330-900 vélarinnar er 7.250 sjómílur og flugdrægni A330-800 vélarinnar er meira en 8.000 sjómílur. Þetta hefur í för með sér að hægt er að fljúga báðum gerðum fullhlöðnum beint frá Evrópu til áfangastaða í Asíu.
A330 vélarnar eru vinsælustu breiðþoturnar frá upphafi. Alls hafa 1.700 þotur verið pantaðar af 119 viðskiptavinum um allan heim. Í dag eru meira en 1.370 A330 vélar í notkun hjá 125 flugfélögum. Þær fljúga á allt frá þéttum innanlands og svæðisbundum leiðum til langra leiða á milli heimsálfa.