Á stolnum bíl með fölsk númer
Lögreglumenn í Keflavík handtóku nú síðdegis ungt par í bíl en fólkið hafði stolið bílnum í Reykjavík síðustu nótt.Lögreglumenn veittu bílnum athygli því aðra skráningarplötuna vantaði. Við athugun kom í ljós að bílnúmerið tilheyrði öðru ökutæki. Parið var handtekið og fært á lögreglustöðina í Keflavík. Pilturinn sem ók bílnum er rúmlega tvítugur en stúlkan sem var með honum er á 19. aldursári. Þau verða yfirheyrð á morgun.