Á sjötta þúsund vinningar í Jólalukku Víkurfrétta og verslana
Átján verslanir og fyrirtæki í Reykjanesbæ bjóða upp á Jólalukku í ár en henni var dreift í gærkvöldi. Hinn sívinsæli Jólalukku-skafmiðaleikur Víkurfrétta er nú haldin í fjórtánda sinn sem vart þarf að kynna fyrir Suðurnesjamönnum.
Vinningar eru 5300 talsins og heildarverðmæti þeirra er vel yfir 5 milljónir króna. Þar af eru 11 gjafabréf með Icelandair, fimmtíu tommu sjónvarpstæki frá Nettó, tíu gjafabréf í Nettó að upphæð 10 þúsund krónur auk margra annarra vinninga, smærri og stærri frá fjörutíum aðilum á Suðurnesjum. Þessi skemmtilegi og viðamikli jólaleikur hefur verið samstarfsverkefni Víkurfrétta og verslana á Suðurnesjum og er markmið hans að auka jólastemmninguna í desember. Þeir sem gera jólainnkaup í þeim verslunum sem bjóða Jólalukkuna geta átt von á glæsilegum vinningum. Nettó og Kaskó, verslanir Samkaupa hafa verið stærstu samstarfsaðilar Víkurfrétta í Jólalukkunni og koma myndarlega að henni eins og undanfarin ár með samstarfsaðilum sínum eins og Ölgerðinni og Vífilfelli sem hafa verið með frá upphafi.
Fyrirkomulagið í Jólalukkunni er einfalt. Þegar verslað er fyrir 5000 krónur í þeim verslunum sem taka þátt í Jólalukkunni fá viðskiptavinir afhentan Jólalukkumiða og sjá um leið hvort vinningur er á miðanum. Fólk getur þá nálgast vinninginn strax hjá viðkomandi verslun eða þjónustuaðila. Ef það leynist hins vegar ekki vinningur á miðanum er ekki öll von úti því hægt er að setja nafn sitt á bakhlið miðans og skila honum í lukkupotta sem staðsettir eru í Kaskó og í Nettó í Reykjanesbæ. Úr lukkupottunum verða dregnir veglegir vinningar þrisvar sinnum fram að jólum. Vinningar í úrdrættinum eru m.a. 100 þúsund króna gjafabréf í Nettó, þrjú gjafbréf með Icelandair, fjögur 15 þús. kr. gjafabréf í Nettó og árskort í Sporthúsinu á Ásbrú fleiri veglegra vinninga.
Heildarverðmæti vinninga í Jólalukkunni er yfir 5 milljónir króna. Auk þeirra verslana sem taka beinan þátt í Jólalukkunni eru fjölmörg fyrirtæki á svæðinu sem leggja til vinninga. Leikurinn stendur yfir fram að jólum eða á meðan upplag miða endist.