Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

A-listanum vísað frá kjörstað með tölvubúnað
Laugardagur 27. maí 2006 kl. 11:36

A-listanum vísað frá kjörstað með tölvubúnað

Fulltrúum A-listans í Reykjanesbæ var í morgun vísað í burtu af öllum kjördeildunum sjö í Reykjanesbæ með tölvubúnað sem þau notuðu til skráningar á þeim sem þegar hafa komið og kosið.

„Við fengum engin svör og erum núna komin með annað skráningarkerfi,“ sagði Brynja Lind Sævarsdóttir, kosningastjóri A listans. „Það voru engin önnur sjónarmið en annarleg sjónarmið sem réðu þarna ferðinni, tölvuskráningar voru t.d. leyfðar á Selfossi fyrir fjórum árum. Við urðum að fjarlægja tölvurnar og nú geymum við allar upplýsingarnar á pappír,“ sagði Brynja Lind og vildi láta þess getið að formaður kjörstjórnar væri maki Bjarkar Guðjónsdóttur, forseta bæjarstjórnar sem skipaði 3. sæti á D – lista og að Sýslumaðurinn í Keflavík hefði vikið sæti í utankjörstaðar atkvæðagreiðslu vegna sonar síns sem skipar 2. sæti á A lista í Reykjanesbæ.

Ottó Jörgensen, formaður kjörstjórnar, tók skýrt fram að tölvur væru ekki leyfðar í kjördeildum og að fordæmi væri fyrir því að leyfa ekki tölvurnar. „Þegar þetta kom upp síðast, 2002, þá kom eitt framboð með tölvur og kjósendur sem og annað framboð kvörtuðu vegna þessa og því höfum við ákveðið að leyfa ekki tölvuskráningu í kjördeildum í Reykjanesbæ.

Aðspurður um hvort ekki væri neitt athugavert við það að formaður kjörstjórnar ætti eiginkonu í framboði sagðist Ottó ekkert ætla að fullyrða um það og að ákvörðun Sýslumanns væri hans eigin og að hann hlyti að fylgja settum reglum.

Mynd: Flaggað við Heiðarskóla í morgun.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024