Á fjórða hundrað börn að byrja í 1. bekk
Grunnskólarnir hófu göngu sína á ný eftir sumarfrí í vikunni. Alls eru 360 börn sem hefja nám í fyrsta bekk á Suðurnesjum þetta haustið. Flestir eru 1. bekkingar í Reykjanesbæ eða 243 talsins, 47 í Grindavík, 30 í Sandgerði, 25 í Garði og 15 í Vogum.
Grunnskólanemendur á Suðurnesjum eru heldur fleiri í ár en í fyrra og hefur fjölgað í öllum grunnskólunum fyrir utan í Grindavík. Í Reykjanesbæ hefur grunnskólanemendum fjölgað um 139 frá fyrra ári og eru nú 2213. Í Sandgerði stunda nú 25 fleiri nám við grunnskólanna en í fyrra og eru nemendur skólans 252. Nemendum í Vogum hefur fjölgað um tvo og eru nemendur Stóru-Vogaskóla 189 talsins. Sömuleiðis hefur fjölgað um tvo í Gerðaskóla og eru nemendur hans 209 í ár. Nemendum við Grunnskólann í Grindavík hefur fækkað um 24 frá fyrra ári.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í Grunnskólanum í Sandgerði á fyrsta degi skólaársins, síðasta mánudag.
Elín Yngvadóttir, aðstoðarskólastjóri Grunnskólans í Sandgerði og Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri. VF-myndir Eyþór Sæmundsson