Á erfitt með að kyngja fréttum af andláti Michael Jackson
Einn kunnasti aðdáandi poppgoðsins Michael Jackson, blaðamaðurinn Atli Már Gylfason, segist eiga erfitt með að kyngja tíðindum kvöldsins, að Jackson sé látinn.
„Ég á bara hálfpartinn erfitt með að kyngja þessu. Ég hef verið aðdáandi hans í langan tíma og hef ekkert skammast mín fyrir það,“ segir Atli Már, sem hafði tryggt sér miða á tónleika með kappanum í London þann 17. ágúst nk. „Ég er orðinn vonlítill um að það gangi eftir“.
Alti, sem er staddur í sumarbústað úti á landi hefur varið kvöldinu í að fara á milli erlendra fréttasíða á netinu sem hafa flutt fréttir af því að ástand Michael Jackson sé alvarlegt og að hann sé látinn.
„Já, ég er að lesa það núna af erlendu fréttamiðlunum. Þetta er mikill sorgardagur fyrir milljónir manna um allan heim,“ sagði Atli Már Gylfason í samtali við Víkurfréttir í kvöld. Atli komst á síður Víkurfrétta fyrir um tveimur áratugum þegar hann var djúpt sokkinn í Jackson-æðið sem barn. Hann segist síður en svo skammast sín fyrir þann tíma.
Frétt CNN af andláti Michael Jackson. Atli Már hefur m.a. verið fréttaritari CNN á Íslandi.