„Á ég að þurfa að reka þig úr ræðustól?“
Orðið var tekið af Ásmundi Friðrikssyni bæjarstjóra í Garði á bæjarstjórnarfundi í Garði í kvöld. Jónína Holm, nýkjörinn forseti bæjarstjórnar, var óánægð með framgöngu bæjarstjórans í umræðum um fundargerð skólanefndar. Sagði hún Ásmund vera kominn út fyrir það svið sem ræða mátti undir þessum lið fundargerðarinnar.
„Á ég að þurfa að reka þig úr ræðustól?,“ sagði Jónína við Ásmund og tók af honum orðið og sendi til sætis um leið og hún tilkynnti að á þessari stundu yrði bæjarstjórnarfundinum lokað fyrir áheyrendum, sem voru fjölmargir.
Það er ekki ofsögum sagt að fundurinn var á suðupunkti í kvöld og fundargestir létu óánægju sína í ljós og mótmæltu því harðlega að vera vísað út úr fundarsal bæjarstjórnar.
Meðfylgjandi mynd tók Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, þegar Jónína Holm stóð upp og stillti sér upp við hlið Ásmundar undir ræðu hans og tilkynnti honum að hann væri kominn út fyrir umræðuefnið.