Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Á annað þúsund sumarstörf á Keflavíkurflugvelli
Föstudagur 4. febrúar 2022 kl. 08:00

Á annað þúsund sumarstörf á Keflavíkurflugvelli

Tvö af stærstu fyrirtækjunum í fluggeiranum á Keflavíkurflugvelli, Icelandair og Airport Associates ætla að ráða samtals um sjö hundruð manns til starfa í sumar.

Icelandair hefur að undanförnu auglýst eftir fólki í ýmis störf á Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða sumarstörf í farþegaafgreiðslu, hlaðdeild, ræstingum og flugeldhúsi. Alls er um að ræða um 473 stöðugildi fyrir sumarið 2022. Ekki fengust upplýsingar um störf flugmanna og flugþjóna en Icelandair hefur að undanförnu verið að ganga frá endurráðningu fólks í þeim störfum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við erum á þessum tímapunkti eingöngu að ráða í tímabundin störf með möguleika á fastráðningu í haust ef forsendur fyrir áframhaldandi starfi verða til staðar þá. Fyrstu hópar byrja að koma inn í mars en við erum að ráða alveg inn í júní. Allir fá samning út september, sumir mögulega út október líka,“ segir Guðmundur Ólafsson hjá Icelandair. „Við fögnum sem flestum umsóknum af Suðurnesjunum enn meirihluti starfsfólks okkar er búsettur í Reykjanesbæ og nærliggjandi bæjarfélögum. Við munum þó að öllum líkindum þurfa að ráða einhvern hluta af sumarfólki þessa árs beint frá Póllandi eins og undanfarin ár að undanskildum 2020 og 2021. Hjá okkur vinnur líka fólk sem er búsett af höfuðborgarsvæðinu en það er þó í minnihluta,“ sagði Guðmundur.

Sigþór Kristinn Skúlason, framkvæmdastjóri Airport Associates á Keflavíkurflugvelli, segir að til standi að ráða 150 til 200 manns og í heildina geti starfsmannafjöldi náð 400 manns í sumar. Hann vonar að hægt verði að ráða sem flesta frá Suðurnesjum en þó liggi það fyrir að sækja verði starfsfólk út fyrir landsteinana. Þegar mest var árið 2018 náði starfsmannafjöldi fyrirtækisins um 700.

„Þetta er allt á réttri og mikil bjartsýni. Reksturinn hefur verið í góðum gír allt frá síðasta vori og veturinn varð betri en við áttum von á. Það er bjartsýni hjá erlendu flugfélögunum og Play verður með sex flugvélar í sumar og tíu á næsta ári,“ segir Sigþór en flugfélögin sem nýta þjónustu APA verða nálægt tuttugu í sumar. Sigþór segir að innan tveggja ára verði starfsemin að öllum líkindum orðin eins og þegar hún var mest árið 2018. Félög tengd Airport Associates, UPS hraðsendingafyrirtækið og Suðurflug sem APA keypti ekki alls fyrir löngu hafa gengið vel í heimsfaraldri. Starfsmannafjöldi fyrirtækjannna er samtals um 30 til 40.

Ljóst er að fjöldi starfa sem í boði verða í og við flugstöðina mun verða á annað þúsund. Eitthvað af þeim störfum verða til frambúðar. Fjöldi annarra fyrirtækja við stöðina munu einnig ráða fólk í sumar. Í Víkur­fréttum er auglýsing frá Fríhöfninni sem óskar eftir starfsfólki en hún hefur alla tíð verið einn af stærri vinnustöðum flugstöðvarinnar.

Þær upplýsingar bárust rétt áður en Víkurfréttir fóru í prentun á þriðjudagskvöld að Isavia gerir ráð fyrir að fjöldi sumarstarfa hjá fyrirtækinu verði um 300 talsins.