Á annað hundrað starfsmenn við byggingu kísilvers United
- framleiðsla mun hefjast í maí 2016
Á annað hundrað manns starfa nú við framkvæmdir hjá United Silicon kísilverinu í Helguvík. Því var fagnað í vinnubúðum fyrirtækisins í Helguvík sl. föstudag með grillveislu.
„Þetta hefur gengið ágætlega, nokkurn veginn samkvæmt áætlun. Við erum kannski örlítið á eftir en ætlum að vinna það upp. Við stefnum að því að hefja hér framleiðslu í maí næsta vor eins og upphafleg plön gerðu ráð fyrir,“ sagði Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóri og aðaleigandi United Silicon fyrirtækisins en það reisir nú kísilver í Helguvík.
Tólf manns starfa hjá móðurfélaginu en starfsmenn hjá undirverktökum töldu rúmlega hundrað í fyrsta skipti í síðustu viku. Vinna við fyrsta áfanga af fjórum hjá United Silicon er í fullum gangi en verksmiðjan verður byggð í fjórum áföngum. Hægt er að framleiða tæp 22 þúsund tonn af kísli á ári með einum ofni. Í janúar hefst þjálfun starfsmanna svo að þeir geti tekið til starfa þegar starfræksla kísilversins hefst í maí á næsta ári.
Magnús segir næsta áfanga fara eftir því hvenær hægt verði að fá raforku fyrir annan ofninn. Það eykur hlut hágæðakísils í framleiðslunni. Hann segir að til þess að geta framleitt sem mest af hágæðakísli fyrir verðmæta markaði þurfi að lágmarki tveggja ofna verksmiðju. Mikill gæðamunur sé á hráefninu og þegar einn ofn sé í rekstri þurfi allt að fara í hann. Hægt sé að flokka hráefni mun betur þegar tveir ofnar séu í verksmiðju og láta besta hráefnið í annan ofninn.
Um 85% afurða verksmiðjunnar hafa verið seld til tveggja erlendra viðskiptavina með samningum til langs tíma.
Forsvarsmenn ÍAV sem er aðalverktaki United í þessum framkvæmdum, sögðu við fréttamann að vel hefði gengið að manna verkið hingað til. Mikil vinna væri í boði og það hefði greinilega haft eitthvað að segja.
Grillstemmning í Helguvík. Starfsmenn Menu grilluðu ofan í mannskapinn.