Á annað hundrað nemendur útskrifast frá Keili
Keilir útskrifaði 160 nemendur við hátíðlega athöfn í Andrews Theater á Ásbrú föstudaginn 14. júní síðastliðinn. Alls útskrifuðust 72 nemendur úr Háskólabrú Keilis, þar af tíu í fjarnámi, 60 ÍAK einkaþjálfarar, 13 tæknifræðingar og 15 nemendur luku atvinnuflugmannsprófi. Við athöfnina fluttu Jana María Guðmundsdóttir og Högni Þorsteinsson tónlistaratriði og verðlaun voru veitt fyrir framúrskarandi námsárangur.
Dúxar í Háskólabrú voru Díana Dúa Helgadóttir og Ramuné Kamarauskaité með 9,11 í meðaleinkunn. Kristín Ósk Wiium Hjartardóttir flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Háskólabrúar.
Jóhann Atli Hafliðason fékk viðurkenningu frá Icelandair fyrir bestan námsárangur í atvinnuflugmannsnámi með 9,59 í meðaleinkunn. Auk þess veittu Air Atlanta og Flugfélag Íslands viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í flugnámi. Andri Þór Valsson flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Flugakademíu Keilis.
Hildur Grímsdóttir dúxaði úr ÍAK einakþjálfun með 9,53 í meðaleinkunn og hlaut hún viðurkenningu frá Altis. Erlendur Jóhann Guðmundsson flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Íþróttaakademíu Keilis.
Fyrr um daginn fór einnig fram brautskráning úr tæknifræðinámi Keilis. Þetta er í annað skipti sem Keilir og Háskóli Íslands útskrifa í sameiningu nemendur með BSc-gráðu í tæknifræði og brautskráðust í ár 13 nemendur af tveimur brautum, orku- og umhverfistæknifræði og mekatróník hátæknifræði. Veittar voru viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og bestu lokaverkefnin. Dúx var Jósep Freyr Gunnarsson með meðaleinkunnina 8,98. Hann hlaut gjafir frá Samtökum iðnaðarins og Marel, auk peningagjafar frá HS-Orku fyrir bestan samanlagðan námsárangur.
Þá tilkynnti Sigurgestur Guðlaugsson, verkefnastjóri hjá Kadeco – Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, að árlega muni félagið bjóða einum útskriftarnema í tæknifræðinni aðstöðu í frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú án endurgjalds.
Alls hafa 1.580 nemendur útskrifast frá stofnun Keilis árið 2007, þar af 915 af Háskólabrú Keilis, 370 í ÍAK einkaþjálfun og 205 í flugtengdum greinum.