Á áætlun þrátt fyrir annríki
Það komast nær allir til og frá landinu á réttum tíma þessa dagana eins og nýjustu stundvísitölur Túrista sýna . Það þurfa fáir ferðalangar að drepa tímann á Keflavíkurflugvelli þessar vikurnar. Rúmlega níu af hverjum tíu brottförum héldu áætlun á fyrri hluta mánaðarins og komutímar standast líka nær alltaf eins og sjá má á töflunni hér neðar á síðunni.
Umferðin í hámarki
Júlí er háannatími í millilandaflugi og það er því ánægjulegt að stundvísin á Keflavíkurflugvelli er góð þrátt fyrir mikla traffík. Icelandair fór til dæmis nærri því 900 ferðir til og frá landinu síðustu tvær vikur og voru 90 prósent þeirra á réttum tíma. Tafirnar í mínútum talið voru fáar.
Iceland Express flaug tæplega 160 sinnum, eða tvöfalt oftar en WOW air, og hélt áætlun félagsins í 94 prósent tilvika. Hjá WOW air var hlutfallið hæst eða 96 prósent.
Stundvísitölur Túrista, 1. til 15. júlí (í sviga eru niðurstöður seinni hluta júní).
1. - 15. júlí. |
Hlutfall brottfara á tíma | Meðalseinkun brottfara | Hlutfall koma á tíma | Meðalseinkun koma | Hlutfall ferða á tíma | Meðalbið alls |
Icelandair | 92% (91%) | 3 mín (2 mín) | 88% (80%) | 3 mín (4 mín) | 90% (85%) | 3 mín (3 mín) |
Iceland Express | 96% (95%) | 3 mín (8 mín) | 91% (87%) | 12 mín (6 mín) | 94% (91%) |
8 mín (7 mín) |
WOW air | 95% (95%) | 0,5 mín (1 mín) | 98% (98%) | 1 min (0 mín) | 96% (96%) | 1 mín (0,5 mín) |
Um útreikningana: Daglega reiknar Túristi út hversu mikill munur er á áætluðum komu- og brottfaratímum og þeim tímasetningum sem gefnar eru upp fyrir lendingar og flugtak á heimasíðu Keflavíkurflugvallar. Þar sem seinkun um korter telst vera innan skekkjumarka í fluggeiranum þá eru fimmtán mínútur dregnar frá öllum seinkunum. Flug sem tefjast um minna en stundarfjórðung teljast vera á áætlun.