99% ánægð með þjónustu leikskóla og dagforeldra í Reykjanesbæ
Foreldrar í Reykjanesbæ eru mjög ánægðir með þjónustu dagforeldra og leikskóla samkvæmt nýlegum könnunum.
Meirihluti foreldra sem nýta sér þjónustu dagforeldra í Reykjanesbæ eða 99% eru ánægðir með þjónustuna samkvæmt nýlegri könnun sem fjölskyldu- og félagsþjónustusvið Reykjanesbæjar lét framkvæma á tímabilinu nóvember til desember sl.
Alls tóku 95 þátt í könnuninni eða 76% og vekur athygli að einungis 1% þáttakenda eru ekki ánægðir með þjónustuna en segjast þó hvorki vera ánægðir né óánægðir. Þjónusta dagforeldra er veitt börnum fram að 2 ára aldri þegar leikskólaþjónusta tekur við. Í dag starfa í Reykjanesbæ alls 25 dagforeldrar og hafa margir þeirra starfað í 10 ár eða lengur. Af því tilefni verða þeir heiðraðir á Degi fjölskyldunnar sem haldinn verður hátíðlegur með málþingi í Reykjanesbæ laugardaginn 21. febrúar n.k.
Í nýlegri þjónustukönnun Capacent Gallup segjast 82,6% íbúa vera ánægðir með þjónustu leikskóla, hlutlausir eru 16,2% og óánægðir 1,2%.
Leikskólar í Reykjanesbæ eru 10 talsins, þar af 4 einkareknir. Vegna mikillar íbúafjölgunar í Reykjanesbæ sem er tæp 30% á sl. fjórum árum hefur börnum á leikskólum fjölgað úr 658 árið 2007 í 855 í dag. Enginn biðlisti er eftir leikskólavist í Reykjanesbæ.