98% gesta ánægðir með tjaldsvæðið
Nýja tjaldsvæðið í Grindavík fær góða einkunn gesta sem heimsóttu það í sumar. Viðhorfskönnun sem þá var gerð sýnir að 98% gestanna voru ánægðir með tjaldsvæðið og töldu það í háum eða góðum gæðaflokki.
Um þriðjungur erlendra gesta sem dvaldi á tjaldsvæðinu var annað hvort að koma úr flugi eða á leið í flug. Um þriðjungur valdi tjaldsvæðið til að skoða sig um í Grindavík og nágrenni. Gott orðspor virtist hafa töluverð áhrif á innlenda gesti. Vonast er til að þessi svörun nýtist við markaðssetningu á tjaldsvæðinu á næsta ári. Flestar athugasemdir við tjaldsvæðið sem gerðar voru sneru að sturtuaðstöðu og svo þvotta- og eldunaraðstöðu. Tilkoma þjónustuhússins kemur til móts við þessar athugasemdir.
Fram kom að gestir voru ánægðir með þjónustu umsjónaraðila tjaldsvæðisins sem voru á vegum Vinnuskólans.