95 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur á hálfum mánuði
Þrjátíu og þrír ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur á Skólavegi í Reykjanesbæ síðustu tvær vikurnar í nóvember í umferðarátaki Lögreglunnar á Suðurnesjum við skólana í umdæminu.
Samtals voru 95 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur í umdæminu á þessu tímabili, þar af 29 sem voru stöðvaðir á Reykjanesbraut og sjö á Grindavíkurvegi.
Lögreglan hefur fylgst sérstaklega með hraðakstri við skólana og langflestir þeirra ökumanna sem kærðir voru á tímabilinu voru stöðvaðir á Skólavegi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni. Hámarkshraði á Skólavegi er 30 km og hefur verið síðan á haustdögum 2004. Fimm þessara 33ja ökumanna sem stöðvaður voru á Skólavegi mældust á tvöföldum hámarkshraða.
Alvarlegasta tilvikið þar átti sér stað síðastliðinn fimmtudag er lögreglan varð vitni að því þegar karlmaður á þrítugsaldri ók 70 km hraða og brunaði framúr annarri bifreið á gangbraut. Hann var sviptur ökuréttindum á staðnum.
Sextán ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur á Njarðarbraut í Reykjanesbæ á þessu sama tímabili, þar af nokkrir við gangbrautina hjá Hjallavegi, fjórir á Hringbraut og einn á Heiðarbóli við Heiðarskóla, einn á Faxabraut vestan við Hringbraut og tveir á Flugvallarvegi.