95 nemendur útskrifast af vorönn frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja
Skólaslit haustannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram laugardaginn 21. maí. Að þessu sinni útskrifuðust 95 nemendur; 43 stúdentar, 5 meistarar, 12 iðnnemar, 9 sjúkraliðar og 5 af starfsbraut. Þá útskrifuðust 9 af starfsnámsbrautum, 17 af flugþjónustubraut og tveir skiptinemar. Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur eða fleiri námsbrautum. Konur voru 60 en karlar 35. Alls komu 68 úr Reykjanesbæ, 8 úr Grindavík, 5 komu úr Sandgerði, 4 úr Garði og og þrír úr Vogum. Nemendur úr sveitarfélögum utan Suðurnesja voru sjö; þrír úr Reykjavík og einn frá Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og Akureyri.
Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Jóna Marín Ólafsdóttir fékk gjöf frá Bókabúð Keflavíkur fyrir góðan árangur í raungreinum, frá Eddu-útgáfu fyrir góðan árangur í íslensku og frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði. Jóna Marín fékk einnig viðurkenningar frá skólanum fyrir árangur sinn í líffræði og jarðfræði, eðlis- og efnafræði, ensku og þýsku. Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í raungreinum og myndlist.
Bjarki Már Elíasson fékk gjöf frá Efnafræðifélaginu fyrir árangur sinn í efnafræði og Ingibjörg Dröfn Halldórsdóttir fékk viðurkenningu frá IGS Flugþjónustu fyrir góðan árangur á flugþjónustubraut. Þá fékk Brynja Hafsteinsdóttir gjöf frá skólanum fyrir árangur á sjúkraliðabraut og Elín Kjartansdóttir fyrir árangur á flugþjónustubraut. Hulda Oddsdóttir fékk viðurkenningu fyrir árangur í bókfærslu, Sidi Zaki Ramadhan fyrir ensku, Þórdís Garðarsdóttir fyrir félagsfræði, Sigrún Lilja Jóhannesdóttir fyrir góðan árangur í tungumálum og Marinó Gunnarsson og Ólafía Bragadóttir fyrir árangur í íþróttum.
Nemendur á starfsbraut fengu viðurkenningar fyrir sinn árangur; Ásmundur Þórhallsson fyrir tölvugreinar, Árni Jakob Óskarsson fyrir íþróttir, Berglind Daníelsdóttir fyrir íslensku, Konráð Ragnarsson fyrir stærðfræði og Þormar Helgi Ingimarsson fyrir myndlist. Þau Arnar Fells Gunnarsson, Atli Már Gylfason, Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson, Hildur Gunnarsdóttir, Jóna Marín Ólafsdóttir, Runólfur Þór Sanders og Sigrún Lilja Jóhannesdóttir fengu öll viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda skólans. Einnig fengu skiptinemarnir Mariam Elisabeth Hill og Martino Larocchia gjöf frá skólanum til minningar um veru sína á Íslandi og í skólanum.
Að venju veitti Sparisjóðurinn í Keflavík nemendum skólans viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri þær fyrir hönd Sparisjóðsins. Að þessu sinni hlaut Jóna Marín Ólafsdóttir viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og hún hlaut einnig viðurkenningar fyrir árangur sinn í stærðfræði og raungreinum, íslensku og tungumálum. Þórdís Garðarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í samfélagsgreinum.
Við lok athafnarinnar veitti Oddný Harðardóttir skólameistari Guðna Kjartanssyni, Gísla Torfasyni og Sumarrós Sigurðardóttur gullmerki FS. Þau hafa öll kennt við skólann í 25 ár, hafa átt farsælan feril og notað vinsælda meðal nemenda og samstarfsfólks.
Að lokum sleit skólameistari vorönn 2005 og útskriftarnemar og gestir gengu út í sumarið.
Texti og mynd af vef Fjölbrautaskóla Suðurnesja.