90 manns leita fólksins - veður fer versnandi
Um níutíu manna björgunarlið í 23 hópum leitar nú þriggja ungmenna frá Keflavík á tveimur Toyota Hi-Lux jeppum sem fóru frá Dalvík um klukkan 14 í gær en lögreglan og Landsbjörg hófu leit í hádeginu. Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur leitað á svæðinu frá því um hádegi og mun vera að ljúka leit nú um kl. 17.
Björgunarsveitir eru á leið á svæðið úr öllum áttum og eru björgunarsveitarmenn að norðan komnir að Hveravöllum og von er á sveitunum að sunnan innan tíðar. Í bílunum eru tveir karlmenn og ein kona. Fólkið ætlaði suður Kjalveg en hefur ekki skilað sér. Um klukkan 17 í gær sást til bílanna við Dúfunefsfell og var ætlun þeirra að halda niður að Hveravöllum. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta er a.m.k. annar jeppaeigandinn vanur ferðum á hálendinu. Hins vegar er hætt við að bílarnir hafi fest sig í krapa og við aðstæður eins og í dag getur krapinn verið eins sogskál á bílana, svo þeir komist ekki lönd né strönd.
Veður til leitar hefur verið ágætt í dag en búist er við að það versni upp úr klukkan 17.
Kort í eigu Landmælinga Íslands.
Dúfunefsfell efst á kortinu. Ökuleið yfir hálendið merkt með brotalínu.