Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 6. september 2002 kl. 13:56

90% kvóta Sandgerðinga farin á síðustu 5 árum

90% af kvóta Sandgerðinga hefur farið úr sveitarfélaginu á síðustu 5 árum, eða tæp 11.500 tonn í þorskígildum talið. Á fiskveiðiárinu 1997-1998 voru aflaheimildir í Sandgerði tæplega 13 þúsund tonn samkvæmt tölum frá Fiskistofu, en í úthlutun fyrir nýhafið fiskveiðiár koma 1.374 tonn í hlut Sandgerðis og er samdrátturinn á þessu 5 ára tímabili því tæplega 90%. Óskar Gunnarsson, forseti Bæjarstjórnar Sandgerðis sagði í samtali við Víkurfréttir þessa þróun vera mjög alvarlegt mál og sagði Óskar að sveitarfélagið hafi reynt að leita allra leiða og ráða til að sporna við þessari þróun: „Það er ekki nokkur vafi á því að þessi gríðarlegi samdráttur er fiskveiðistjórnunarkerfinu að kenna og við höfum mótmælt þessu kerfi eins og hægt er. Við höfum reynt að halda kvótanum hérna heima með öllum tiltækum ráðum, m.a. með því að bæta allan aðbúnað á höfninni en sveitarfélögin fá bara engu ráðið um þetta, því þau eiga ekki kvótann,“ sagði Óskar. Á síðustu árum hafa þrjú stór sjávarútvegsfyrirtæki verið seld úr Sandgerði og allur kvóti með þeim: „Þegar að Haraldur Böðvarsson á Akranesi og Miðnes hér í Sandgerði sameinuðust þá grunaði mann hvert stefndi. Síðan þá hafa bæði Arney og Jón Erlingsson horfið úr sveitarfélaginu, en sveitarfélögin hafa sem slík ekkert bolmagn til að kaupa upp þennan kvóta, enda er þarna um hundruða milljóna króna viðskipti að ræða,“ sagði Óskar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024