90 hjúkrunarrými vantar til framtíðar
Bæjarfulltrúar A-listans í Reykjanesbæ telur að fljótlega þurfi að gera ráð fyrir 90 hjúkrunarrýmum á Nesvöllum til að fullnægja þörfinni til framtíðar. Í nýrri áætlun félagsmálaráðherra er gert ráð fyrir 30 nýjum hjúkrunarrýmum á Nesvöllum og DS en samkvæmt nýju mati eru nú 40 sjúkir aldraðir á Suðurnesjum í brýnni þörf fyrir vistum.
Þetta kemur fram í bókun sem A-listinn lagði fram á bæjarstjórnarfundi í gær. Bókunin er svohljóðandi:
„A-listinn fagnar því að nú bendir allt til þess að sjúkir aldraðir á Suðurnesjum séu loks að fá úrlausn sinna mála. Í áætlun Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra um byggingu 400 hjúkrunarrýma um land allt er gert ráð fyrir byggingu deildar á Nesvöllum með 25 hjúkrunarrýmum að viðbættum 5 rýmum á DS ætluðum til þess að fjölga einbýlum á kostnað tvíbýla.
Þetta er skref í rétta átt en betur má ef duga skal því samkvæmt nýju vistunarmati eru nú 40 sjúkir aldraðir á Suðurnesjum í mjög brýnni þörf á vistun á hjúkrunarheimili.
A-listinn styður tillögur samráðshóps um byggingu hjúkrunarheimilis á Nesvöllum þess efnis að í fyrsta áfanga verði húsnæði deildarinnar ekki aðeins miðað við hjúkrunarrýmin 25 sem áætluð eru, heldur verði í þessum áfanga gert ráð fyrir allt að 60 rýmum fyrir sjúka aldraða.
Einnig teljum við að fljótlega þurfi að gera ráð fyrir samtals 90 hjúkrunarrýmum á Nesvöllum til að fullnægja þörf á hjúkrunarýmum fyrir sjúka aldraða í framtíðinni."