8 einstaklingar af atvinnuleysisskrá í starfsþjálfun
Átta einstaklingar af atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum verða ráðnir í starfsþjálfun hjá Flugþjónustunni á Keflavíkurflugvelli ehf. (IGS) og hefur fyrirtækið gert samkomulag við Svæðisvinnumiðlun Suðurnesja um verkefnið. Einstaklingarnir verða í 70% starfi hjá fyrirtækinu og auk atvinnuleysisbóta greiðir IGS þeim ákveðna upphæð á mánuði.
Einstaklingarnir sem ráðnir eru verða þjálfaðir af starfsmönnum IGS til að aðstoða fatlaða, börn og gamalmenni sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda. Starfsfólk IGS hefur sinnt þessum verkþætti innan flugstöðvarinnar. Með samstarfsverkefninu á meðal annars að kanna hvort betra sé að sérstakir starfsmenn sinni þessum störfum með það að markmiði að bæta þjónustu IGS við þennan hóp farþega. Gert er ráð fyrir að verkefnið standi í 6 mánuði og að þeim tíma loknum verði tekin ákvörðun um framhaldið. Að sögn Kjartans Más Kjartanssonar starfsmannastjóra IGS er hann ánægður með samstarfið við Vinnumiðlun Suðurnesja og segir samstarf sem þetta tækifæri fyrir öll fyrirtæki á Suðurnesjum. „Við lítum á þetta sem gott tækifæri til að auka þjónustu IGS við flugfarþega á Keflavíkurflugvelli og ekki síst lítum við á það sem samfélagslega skyldu okkar að bregðast við atvinnuleysisvandanum með þessum hætti.“
Svæðisvinnumiðlun Suðurnesja leitar nú að nægilegum fjölda fólks sem uppfyllir nauðsynlegar kröfur sem gerðar verða til starfsmannanna. Þær eru meðal annars góð tungumálakunnátta, hæfni í mannlegum samskiptum og gott líkamlegt ástand.
Ketill Jósefsson forstöðumaður Svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja segir að það sé von beggja aðila að verkefnið takist vel og vilja báðir aðilar hvetja önnur fyrirtæki á Suðurnesjum til þess að nýta sér þá ýmsu möguleika sem bjóðast í samstarfi við Svæðisvinnumiðlunina. Að sögn Ketils eru um 15 fyrirtæki og stofnanir á Suðurnesjum sem eru í samstarfi við Svæðisvinnumiðlunina varðandi starfsþjálfunarverkefni. „Hér á Suðurnesjum eru slík starfsþjálfunarverkefni mun minna notuð en annars staðar á landinu og ég vil nota tækifærið og hvetja fyrirtæki til að skoða möguleikana sem felast í slíkum verkefnum. Við bjóðum upp á aðstoð við umsóknarferlið hér á skrifstofunni.“
Myndin: Kjartan Már Kjartansson starfsmannastjóri IGS og Ketill Jósefsson forstöðumaður Svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja kynna samstarfið. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.