8. bekkur verður á Ásbrú á næsta skólaári
Á næsta skólaári, 2016 - 2017, verður byrjað að kenna 8. bekk við Háaleitisskóla á Ásbrú. Í dag er 7. bekkur elsti árgangur skólans en nemendum í 8. til 10. bekk á Ásbrú stunda nám við Heiðarskóla í Keflavík.
„Nemendur 7. bekkjar verða því áfram í skólanum næsta vetur og erum við mjög ánægð með þessa nýjung. Við fögnum fjölgun nemenda í skólanum og horfum bjartsýnum augum til framtíðar Háaleitisskóla,“ segir Anna Sigríður Guðmundsdóttir, skólastjóri Háaleitisskóla, í tilkynningu til foreldra.