Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

79% fylgjast með fréttum og umfjöllun á vf.is
Laugardagur 17. júní 2006 kl. 02:20

79% fylgjast með fréttum og umfjöllun á vf.is

Átta af hverjum tíu Reykjanesbæingum á aldrinum 31-45 ára fylgjast með fréttum og umfjöllun á vef Víkurfrétta, www.vf.is. Þetta er niðurstaða könnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði í maí. Spurt var: Fylgist þú með fréttum og umfjöllun Víkurfrétta á netsíðu blaðsins, vf.is?

Úrtak könnunarinnar var 600 manns í Reykjanesbæ og svarhlutfallið var 65%. Aðeins neituðu tveir að svara spurningu Félagsvísindastofnunar.

Hringt var í íbúa á aldrinum 18-75 ára. Þátttakendum var skipt upp í aldursflokkana 18-30 ára, 31-45 ára, 46-60 ára og 61-75 ára.

Eins og fyrr greinir var lesturinn mestur hjá íbúum á aldrinum 31-45 ára eða 79%. Fólk á aldrinum 18-30 ára kemur þar á eftir en 73% þeirra sögðust fylgjast með vf.is. Í aldursflokknum 46-60 ára svöruðu 58% því játandi að þeir fylgdust með vf.is en um þriðjungur fólks á aldrinum 61-75 ára fylgjast með vf.is eða 30% bæjarbúa.

Þá kom það í ljós við könnunina að hópar karla og kvenna eru jafnstórir að telja, 2% fleiri konur lesa vf.is en karlar.

Þessi niðurstaða könnunar Félagsvísindastofnunar kemur okkur á Víkurfréttum skemmtilega á óvart. Daglega getum við fylgst með því hversu margir heimsækja síðuna og hvaða fréttir eru að fá mestan lestur og hvaða myndir eru mest skoðaðar. Það hefur hins vegar verið erfiðara að greina það hvaðan heimsóknirnar eru að koma og hvaða fólk er að lesa vefinn okkar.

Könnunin er því góður mælikvarði á það hversu mikilvægur vefurinn er fyrir samfélagið hér á Suðurnesjum. Þó könnunin hafi eingöngu verið gerð í Reykjanesbæ má eflaust heimfæra niðurstöður hennar upp á öll sveitarfélögin á Suðurnesjum. Það sýna lestrarkannanir sem Gallup hefur gert fyrir Víkurfréttir og sýna að lesturinn er litlu minni í bæjarfélögunum í kringum Reykjanesbæ.

Niðurstaðan segir okkur á Víkurfréttum einnig að gera enn betur og hluti af því er að taka í notkun nýjan og mikið endurbættan vef Víkurfrétta, vf.is. Vefurinn hefur allur verið forritaður upp á nýtt en hönnun og tæknivinna var öll unnin af hugbúnaðarfyrirtækinu daCoda ehf. í Reykjanesbæ, sem er án efa eitt fremsta fyrirtækið á Íslandi í dag í veflausnum.

Vefur Víkurfrétta, vf.is, á eftir að þróast og stækka enn frekar í sumar. Fólk er hvatt til að vera duglegt að koma með ábendingar um það sem betur mætti fara á póstinn: [email protected].

Víkurfréttir eiga og reka tvo aðra vefi, www.vikurfrettir.is, sem er fréttavefur fyrir Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes og vefinn www.kylfingur.is sem er fréttavefur um golf. Þessir vefir verða færðir í sama útlit og www.vf.is síðar í sumar og þannig verður útlit allra vefjanna samræmt.

Nánar verður fjallað um breytingarnar á vef Víkurfrétta í Víkurfréttum næsta fimmtudag. Þar verða helstu nýjungar hans útskýrðar fyrir lesendum, auk þess sem rætt er við Júlíus Guðmundsson hjá hugbúnaðarfyrirtækinu daCoda ehf. í Reykjanesbæ sem sá um að koma vefnum í það horf sem hann er í í dag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024