Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

78 útskrifast frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja
Laugardagur 24. maí 2008 kl. 23:26

78 útskrifast frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Útskrift vorannarSkólaslit vorannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram laugardaginn 24. maí. Að þessu sinni útskrifuðust 78 nemendur; 44 stúdentar, 10 úr verknámi, 6 sjúkraliðar, 7 meistarar, 5 brautskráðust af starfsbraut og fimm úr starfsnámi. Auk þess luku þrír skiptinemar námi sínu í skólanum. Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur námsbrautum. Konur voru 46 en karlar 32. Alls komu 43 úr Reykjanesbæ, 18 úr Grindavík, 7 komu úr Garði, 4 Sandgerði, 3 úr Vogum og einn úr Hafnarfirði, Mosfellsbæ og frá Sauðárkróki.

Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Ólafur Jón Arnbjörnsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Kristján Ásmundsson aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Guðmundur Viktorsson nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Ingunn Þóra Magnúsdóttir sögukennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fluttu tónlist en m.a. þeirra var nýstúdentinn Daði Hafsteinsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Þeir Guðmundur Viktorsson og Gunnar Hörður Garðarsson fengu viðurkenningu fyrir störf sín í þágu nemenda. Hildur Þóra Stefánsdóttir og Matthildur Þorvaldsdóttir fengu viðurkenningar fyrir góðan árangur í vinnustaðanámi á sjúkraliðabraut, Linda Björg Jónsdóttir og Ólöf Ösp Halldórsdóttir fyrir lokaverkefni í textíl og hönnun og þeir Hjörtur Pálsson og Þorsteinn Marteinsson fengu viðurkenningar fyrir árangur í húsasmíði. Guðni Freyr Pálmason fékk verðlaun fyrir árangur sinn í tölvufræði og Arna Rún Guðlaugsdóttir fyrir bókfærslu. Þá fékk María Guðgeirsdóttir viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfræði af þeim nemendum sem ekki eru á náttúrufræðibraut. Guðmundur Viktorsson fékk viðurkenningu frá skólanum fyrir frábæran árangur í tölvufræði og forritun og gjöf frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði. Erla Dögg Haraldsdóttir fékk viðurkenningu fyrir árangur í spænsku, hún fékk einnig gjöf frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur í stærðfræði og gjöf frá Íslenska stærðfræðafélaginu fyrir framúrskarandi árangur sinn í stærðfræði. Þá fengu skiptinemarnir Alessandra Gottardi, Allison Marie Savage og Emanuele Pugi gjöf til minningar um veru sína í skólanum og á Íslandi. Soroptimistaklúbbur Keflavíkur veitti verðlaun fyrir hæstu einkunn í íslensku 303 á vorönn 2008. Verðlaunin eru veitt í minningu Öldu Jensdóttur íslenskukennara og hlaut Eva Björg Óskarsdóttir þau í þetta skipti.

Að venju veitti Sparisjóðurinn í Keflavík nemendum skólans viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Baldur Þórir Guðmundsson þær fyrir hönd Sparisjóðsins. Að þessu sinni hlaut Þorsteinn Marteinsson viðurkenningu fyrir góðan árangur í iðngreinum og Erla Dögg Haraldsdóttir fékk viðurkenningu fyrir árangur sinn í stærðfræði og raungreinum. Erla Dögg hlaut einnig viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.

Veittir voru styrkir frá Íbúðalánasjóði en sjóðurinn styrkir nemendur sem hafa náð góðum árangri í meistaranámi í húsasmíði. Þeir Björgvin Björgvinsson, Gísli Jóhann Sigurðsson, Jóhannes Guðmundur Vilbergsson og Sigurður Ingvason hlutu styrk að þessu sinni.

Ragnheiður Gunnarsdóttir kennari afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður fyrir ári af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þær Anna Þorsteinsdóttir, Ástrós Skúladóttir og Elsa Dóra Hreinsdóttir fengu allar 15.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í ræðumennsku og Fjóla Kristín Freygarðsdóttir fyrir framfarir. Anna Rún Jóhannsdóttir, Guðmundur Viktorsson og Gunnar Hörður Garðarsson hlutu 20.000 kr. ferðastyrk vegna þátttöku í Ungmennaráðstefnu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Hæsta styrkinn að þessu sinni fékk Guðmundur Viktorsson en hann hlaut 100.000 kr. fyrir góðan námsárangur og vel unnin störf í þágu nemenda og skólans.

Við lok athafnarinnar kvaddi skólameistari Ingunni Þóru Magnúsdóttur sögukennara og Sæmund Vilhjálmsson umsjónarmann en þau láta nú af störfum við skólann. Hann þakkaði þeim vel unnin störf í þágu skólans og óskaði þeim góðs gengis á nýjum vettvangi. Skólameistari afhenti einnig Erlu Dögg Haraldsdóttur nýstúdent gjöf frá skólanum en Erla er afrekskona í sundi og hefur sett fjölmörg Íslandsmet. Á sama tíma hefur hún náð góðum árangri í námi sínu við skólann og verið góð fyrirmynd. Erla verður fulltrúi skólans (og Íslands) á Ólympíuleikunum í Kína síðar í sumar.

Að lokum sleit Ólafur Jón Arnbjörnsson skólameistari vorönn 2008.

Texti af vef Fjölbrautaskóla Suðurnesja