750 sagt upp yfirvinnu og bílastyrk
- hjá RNB. A.m.k. þrír sögðu starfu sínu lausu, segir starfsmaður.
750 starfsmenn Reykjanesbæjar fengu eiginlegt uppsagnarbréf í fjölpósti í gær. Þetta kemur fram í aðsendri grein frá Davíð Jóni Kristjánssyni, sem er einn starfsmannanna. Í bréfinu hafi starfsmönnunum verið tilkynnt að af þeim yrðu teknar allar sporslur þ.e. bílastyrkur og næturvinna.
„Bréfið var undirritað af Friðjóni Einarssyni fulltrúa meirihlutans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Það var þó ekki sent af honum til starfsmanna né heldur af bæjarstjóra [...] og var ritara bæjarstjóra falið að senda þetta til okkar starfsmannanna og enginn til svara ef eftir var leitað,“ segir Davíð Jón í greininni.
Hefðu þurft áfallahjálp
Bréfið hafi verið áfall fyrir allan þann fjölda sem starfi hjá Reykjanesbæ. „Fólk var sárt og reitt en enginn af þeim sem komu að þessari ákvörðun hafði séð það fyrir. Margir áttu erfitt með að sinna vinnu sinni það sem eftir leið dags og sumir hefðu einfaldlega þurft á áfallahjálp eða handleiðslu að halda, einhvern til að tala við,“ segir ennfremur í greininni. Aðgerðin hafi verið samþykkt í bæjarráði að morgni 6. nóvember, nokkrum mínútum áður en pósturinn var sendur starfsmönnunum.
Talið að þrír hafi sagt upp
Þegar fólk svo mætti til vinnu í morgun segir Davíð Jón að talað hefði verið um að allavega þrír starfsmenn hjá ráðhúsinu, þrír sérfræðingar á sínu sviði, hefðu sagt starfi sínu lausu og fleiri ættu eftir að fylgja. „Við eigum mjög hæft starfsfólk, fagfólk og allir sérfræðingar á sínu sviði.
Viljum við sjá á eftir þessu fólki?
Komum við til með að fá nýtt og hæft fólk til starfa við þessi skilyrði?“ spyr hann að lokum.
Tímabundið bann við nýráðningum
Eins og Víkurfréttir hafa áður fjallað um var ákveðið á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar á fimmtudagsmorgun að fara í ákveðnar aðgerðir í þessum tilgangi og m.a. draga úr yfirvinnu og aksturskostnaði starfsmanna eins og kostur er. Þannig verði opnunartímar, vaktakerfi og verklag einstakra stofnana. Þá verði yfirvinna einungis heimil með samþykki næsta yfirmanns og öllum ákvæðum um fasta yfirvinnu í ráðningarsamningum sagt upp. Fastlaunasamningar og samningar sem feli í sér ákvæði um „önnur laun“ verði einnig endurskoðaðir. Loks verði ákvæðum um fasta bifreiðastyrki sagt upp en greitt verði fyrir akstur samkvæmt akstursdagsbók, að fengnu samþykki næsta yfirmanns.
Þá hafa Víkurfréttir einnig sagt frá því að tímabundið bann verði við nýráðningum starfsfólks innan bæjarskrifstofunnar og að reynt verði að manna lausar stöður með núverandi starfsfólki. Jafnframt verði ekki endurráðið í stöður undirstofnana nema með sérstöku samþykki bæjarráðs.