Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

74% skrifa undir ósk um persónukjör í Garði
Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði, tekur við undirskriftunum 600 frá Pálma Steinari Guðmundssyni, bæjarfulltrúa sl. mánudag. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson.
Fimmtudagur 27. mars 2014 kl. 10:10

74% skrifa undir ósk um persónukjör í Garði

– Bæjarfulltrúar söfnuðu 600 undirskriftum.

Bæjarfulltrúinn Pálmi Steinar Guðmundsson gekk í nær öll hús í Garðinum og safnaði undirskriftum fyrir persónukjöri í Sveitarfélaginu Garði. Undirskriftirnar afhenti hann Magnúsi Stefánssyni bæjarstjóra á mánudag og verða þær, ásamt erindi sem þeim fylgir, teknar fyrir í bæjarráði Garðs í dag, fimmtudag.

„Ég hef átt samræður við flesta íbúa sem hér eru á kjörskrá og safnað undirskriftum fyrir persónukjöri í komandi sveitarstjórnarkosningum í Garðinum. Af þeim sem ég hef rætt við hafa 600 íbúar á kjörskrá ritað undir áskorun um að í kosningum 2014 verði viðhaft persónukjör í Sveitarfélaginu Garði. Í kosningunum 2010 greiddu 812 atkvæði sem þýðir að 74% þeirra sem tóku þátt í kosningunum vilja persónukjör í komandi sveitarstjórnarkosningum,“ segir Pálmi m.a. í erindi sínu til bæjarráðs sem hann aflaði 600 undirskrifta við og naut undir lokin aðstoðar frá öðrum bæjarfulltrúa, Davíð Ásgeirssyni, sem safnaði um 50 undirskriftum.

Í samtali við Víkurfréttir sagði Pálmi að hann hafi ákveðið að stoppa þegar 600 nöfn voru komin. Hann hafi auðveldlega getað sótt fleiri undirskriftir en að ná 74% af þeim fjölda sem kaus í síðustu sveitarstjórnarkosningum sé vel ásættanlegt með þessari ósk til bæjarráðs.

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði, segir að erindið fari fyrir bæjarráð í dag og samkvæmt ósk Pálma á það svo að fara í framhaldi fyrir bæjarstjórn. Þar hefur óskum um persónukjör hingað til verið hafnað af sitjandi meirihluta.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024