72% sölustaða fylgja reglum um tóbakssölu
Könnun á því hvort sölustaðir á Suðurnesjum færu að lögum um sölu á tóbaki til ungmenna var framkvæmd föstudaginn 19. september. Könnunin var á vegum Samtaka félagsmiðstöðva á Suðurnesjum, (SamSuð) og fór fram í öllum sveitarfélögunum á svæðinu.
Sjö af þeim tuttugu og fimm sölustöðum sem voru kannaðir var tóbak selt of ungum unglingum. Það þýðir að um 72% sölustaða á Suðurnesjum seldu ekki tóbak til ungmenna undir 18 ára aldri.
Könnunin fór þannig fram að 14 til 16 ára ungmenni fóru á sölustaði á Suðurnesjum og freistuðu þess að fá keypt tóbak. Ef starfsmaður seldi viðkomandi ungmenni tóbak fór aðili á vegum SamSuð í verslunina og óskaði eftir því að fá tóbakið endurgreitt og vakti jafnframt athygli á að lög um tóbaksvarnir hefðu verið brotin.
Framkvæmdin gekk vel og það er ánægjuefni hversu stór hluti sölustaða seldi ekki tóbak til of ungra einstaklinga, segir í tilkynningu frá Samtökum félagsmiðstöðva á Suðurnesjum. Þar segir að tilgangur og markmið með könnuninni er að vekja athygli á að 18 ára aldurstakmark er til að kaupa tóbak á sölustöðum. Könnunin verður endurtekin fljótlega.