71% Suðurnesjamanna jákvæðir fyrir áliðnaði
Á Suðurnesjum eru 71% íbúa jákvæðir gagnvart áliðnaði, samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent Gallup vann í lok janúar fyrir Samtök álframleiðenda á Íslandi. Frá þessu er greint á heimasíðu Reykjanesbæjar.
Tæplega 61% landsmanna er jákvætt gagnvart íslenskum áliðnaði samkvæmt könnuninni. Liðlega 21% landsmanna er hlutlaust í afstöðu sinni og um 18% aðspurðra segjast neikvæð gagnvart iðnaðinum.
Sé notað sama hlutfall neikvæðra og hlutlausra og í almenna úrtakinu eru um 16% íbúa Suðurnesja hlutlausir og 13% neikvæðir fyrir áliðnaði. Íbúar Austurlands og Suðurnesja voru jákvæðastir fyrir áliðnaði, samkvæmt könnuninni.
Könnunin var netkönnun, gerð dagana 23. janúar til 1. febrúar. Úrtak var 1.450 manns á landinu öllu, valið af handahófi úr viðhorfahópi Capacent Gallup. Svarhlutfall var 60,1%.