70 kannabisplöntur í iðnaðarhúsnæði
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði nýverið kannabisræktun í umdæminu. Ræktuninni hafði verið komið fyrir í iðnaðarbili, í þremur ræktunartjöldum á efri hæð húsnæðisins. Lögðu lögreglumenn hald á nær 70 kannabisplöntur, auk lampa, filtera og annars búnaðar. Þeir höfðu jafnframt upp á einstaklingi, sem hafði yfir húsnæðinu að ráða og viðurkenndi hann að ræktun færi fram í rýminu.
Þá fór lögregla í aðra húsleit. Við leit í umræddu húsnæði fannst tjald, sem notað hafði verið til kannabisræktunar og ýmis ummerki um ræktunina sjálfa. Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				