70% bréfa til íslensku jólasveinanna frá Þýskalandi
Sem kunnugt er settu Íslensku jólasveinarnir upp sína eigin póstkassa í sumar m.a í miðbæ Akureyrar, í Reykjavík við Litlu jólabúðina og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Jólasveinunum hefur borist gríðarlegur fjöldi af bréfum þá helst frá erlendum ferðamönnum. Bréfin sem jólasveinarnir hafa fengið eru mörg hver afar persónuleg og bera flest vitnisburð um ánægða gesti sem hingað hafa komið. Þeir dásama land og þjóð, matinn, fólkið og landið. Þess má geta að flest bréfanna eru frá Þýskalandi, sennilega um 70% þeirra.
En það eru einnig bréf frá Úkraníu, Rússlandi, Hong Kong, Englandi, Írlandi, Bandaríkjunum og frá Norðurlöndunum svo eitthvað sé nefnt.
Nú fer í hönd mikil vinna hjá jólasveinunum við að svara öllum þessum bréfum en hverju bréfi er svarað með lítilli gjöf sem minnir á Ísland.
Jólasveinarnir létu sérprenta fyrir sig m.a umslög undir bréfin. Svo áttu þeir samstarf við Raven Design í Reykjanesbæ við gerð og hönnun gjafanna.
Íslensku jólasveinarnir eru með eigin heimasíðu; www.icelandicsantaclaus.com og svo eru þeir einnig á Facebook.