Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

70 ár liðin frá brunanum í Skildi 30. desember 1935
Föstudagur 30. desember 2005 kl. 16:03

70 ár liðin frá brunanum í Skildi 30. desember 1935

Mánudaginn 30. desember 1935 varð eldur laus á jólatrésskemmtun barna í samkomuhúsinu Skildi í Keflavík. Ekkert varð við ráðið og á örskömmum tíma brann húsið til kaldra kola og inni brunnu 6 manns, fjögur börn og tvær fullorðnar konur. Þrír létust stuttu síðar af sárum sínum.

Margir brenndust illa eða um 30 manns og þeirra beið löng sjúkdómslega.

Í dag, föstudaginn 30. desember 2005 eru 70 ár liðin frá þessum atburði.

Ekki er vitað til að jafn margir hafi farist í bruna á Íslandi síðan á Sturlungaöld.
Þessi atburður hafði lamandi áhrif á samfélag sem einungis taldi 1.300 manns. Barnamissirinn var sár og hjá mörgum tók við löng sjúkralega því brunasár gróa seint. Fáir voru í stakk búnir til þess að sinna veiku barni heima svo mánuðum skipti.

Atburðurinn varð til þess að velta upp spurningum um brunavarnir en þeim var áfátt og hafði á það verið bent. Eftir brunann var gerð gangskör í brunavörnum.

Þótt bruninn væri hörmulegur hefði getað farið verr. Margir unnu óeigingjarnt hjálparstarf og komu þannig í veg fyrir enn meira tjón og mannskaða.

Íbúar eru hvattir til þess að minnast þessa atburðar og fórnarlamba hans með því að kveikja í dag á kerti við minnismerkið um brunann sem reist var á grunni samkomuhússins við Kirkjuveg.

Þau sem létust:
Kristín Halldórsdóttir 76 ára
Guðrún Eiríksdóttir, 56 ára
Loftur Hlöðver Kristinsson 8. janúar 1925, 10 ára
Borgar Björnsson 5 ára
Guðbjörg Sigurgísladóttir 7 ára
Sólveig Helga Guðmundsdóttir f. 21. maí 1928, 7 ára
Anna Guðmundsdóttir 10 ára
Árni Júlíusson
Þóra Eyjólfsdóttir 65 ára

Ljóð tileinkað harmþrungnum foreldrum eftir slysið 30. desember 1935

En hvar er litla Sólveig með sólarbros á vanga?
Með söknuði í barmi við spyrjum daga alla.
En á hinsta kveldi er við leggjum vegu langa
Að leita hver að sínu, synjar drottinn valla,
En gefur okkur aftur gleðina og trúna,
Og góðu hjartans börnin sem okkur vantar núna.
Það er því æðsta listin þolinmæði að þreyja,
Því það fáum við öll, þó seinna verði, - að deyja.

G. ST.

Af vef Reykjanesbæjar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024