7.000 plöntur gróðursettar á Ásbrú
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Reykjanesbær og Skógræktarfélag Suðurnesja hafa skrifað undir samkomulag varðandi skógrækt á Ásbrú og víðar innan Reykjanesbæjar.
Fyrstu skref í þessu samstarfi voru stigin á undanförnum mánuðum með skógræktarátaki á Ásbrú. Plöntun fór að mestu leyti fram fyrir ofan hringtorg við Grænásbraut. Næst hringtorginu voru gróðursettar stórar plöntur en þeim var fundinn staður í lúpínubreiðum þar sem þær njóta skjóls og næringar frá lúpínunum. Þessi gróðursetning á eftir að setja skemmtilegan svip á innkomu Ásbrúar í framtíðinni.
Ein algengasta vindáttin á Ásbrú er norðaustanátt. Með þetta í huga var ákveðið að gróðursetja rúmlega 7.000 bakkaplöntur norðaustan megin við Ásendahverfið á Ásbrú. Mest var gróðursett af birki, sitkagreni og reynivið en einnig sitkaelri og gráelri. Þá voru einnig gróðursettar um 80 plöntur af nýrri íslenskri lerkitegund sem kallast Hrymur sem verður spennandi að fylgjast með. Vonast er til að þessi gróðursetning fari að mynda skjól fyrir byggðina á Ásbrú á næstu 5 til 10 árum.
Þróunarfélagið og Skógræktarfélagið hafa einnig staðið að gróðursetningu aspa og skrautreynis á Ásbrú. Meðal annars var gróðursett við innkomuna við Grænás-torg, Andrew Theater, golfvöllinn og Sporthúsið. Alls voru gróðursett 36 tré sem voru allt að 200 cm á hæð.
Aðilar samningsins eru bjartsýnir á að skógrækt í Reykjanesbæ muni aukast til muna á komandi árum með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á umhverfið og samfélagið í heild sinni.