67% aukning á fíkniefnaakstri milli ára
Lögreglan stendur fyrir átaki
Það sem af er árinu hafa samtals 149 akstursbrot, þar sem ökumenn voru undir áhrifum fíkniefna, verið skráð hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Er þetta umtalsvert meira heldur en á sama tímabili árið 2012, því þá höfðu 89 brot verið skráð. Þarna er því um 67 prósent aukningu að ræða milli árshluta, en frá þessu er greint í tilkynningu frá lögreglu.
Alls voru 154 brot af þessu tagi skráð hjá embættinu allt árið 2012. Tekið skal fram að fjöldi brota segir ekki alla sögu um fjölda brotlegra ökumanna, því sumir þeirra hafa ítrekað brotið af sér. Sem dæmi má nefna að sami ökumaður hefur verið tekinn níu sinnum fyrir fíkniefnaakstur og annar sjö sinnum. Þeir óku báðir sviptir ökuréttindum.
Lögreglan á Suðurnesjum tók á síðasta ári þá ákvörðun að fara í átak gegn þeim vágesti sem fíkniefnin. Verður þeirri baráttu haldið áfram af fullum þunga í umdæminu eftir því sem fjármunir embættisins leyfa.