6,5% færri farþegar um Keflavíkurflugvöll í febrúar
- Spá gerði ráð fyrir 13% samdrætti í febrúarmánuði
Heildarfjöldi farþega sem fóru um Keflavíkurflugvöll í febrúar var um 508.183. Það er 6,5% minna en á sama tíma í fyrra. Í farþegaspá fyrir árið 2019, sem gefin var út í janúar, var gert ráð fyrir að 473.062 farþegar færu um Keflavíkurflugvöll. Farþegaspá Isavia gerði ráð fyrir 13% samdrætti í febrúarmánuði.
Spáð var að fjöldi íslenskra ferðamanna í febrúar yrði 35.873 en í raun voru þeir 40.575. Það er 0,9% aukning frá fyrra ári og 13,1% meira en farþegaspáin gerði ráð fyrir. Ef horft er til janúar og febrúar í ár hefur íslenskum ferðamönnum fjölgað um 2,4% á þessum tímabili frá því sem var á sama tíma í fyrra, en spáð var að þeim myndi fækka um 3,8 prósent.
Erlendir ferðamenn voru 149.004 í febrúar en því var spáð að þeir yrðu 133.228. Raunfjöldinn er 6,9% minni en á sama tíma í fyrra en 11,8% meiri en spáð var. Í janúar og febrúar hefur erlendum ferðamönnum fækkað um 6,4% frá sama tímabili í fyrra, en því var spáð að þeim myndi fækka um 8,9 prósent. Er það því 2,8% frá spá.
Komu- og brottfararfarþegum hefur fækkað um 3,8% í janúar og febrúar frá því sem var í fyrra en farþegaspá Isavia gerði ráð fyrir að þeim myndi fækka um 8,9 prósent. Skiptifarþegum hefur á sama tímabili fækkað um 11,9% frá í fyrra, en það er nokkuð meira en þau 6,6 prósent sem gert var ráð fyrir í farþegaspánni.
Það er því ljóst að skiptifarþegum fækkaði meira en gert var ráð fyrir í farþegaspá Isavia en komu- og brottfararfarþegum fækkaði ekki jafn mikið og gert var ráð fyrir. Sætaframboð í febrúar, samanborið við sama tíma í fyrra, minnkaði um 4,8 prósent. Heildar sætanýting í nýliðnum febrúarmánuði var 78% en hún var 80% í febrúar í fyrra.
Heildarfjöldi farþega sem fór um Keflavíkurflugvöll nú í febrúar var nokkuð meiri en gert var ráð fyrir í farþegaspá Isavia en nokkuð minni en spáð var í janúar. Á grundvelli þess mætti mögulega færa rök fyrir því að farþegaspáin ætti heldur að vera metin almennt yfir heilt ár en mánuð fyrir mánuð.
Spá Isavia er byggð á bestu fáanlegum tölum, það er frá flugrekstraraðilum sjálfum. Eins og fram hefur komið í kynningum vegna farþegaspár 2019 og árin þar á undan, er um spá að ræða og getur hún tekið breytingum.