Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

 64 útskrifast frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja
Laugardagur 21. maí 2011 kl. 18:42

64 útskrifast frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Skólaslit vorannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram laugardaginn 21. maí. Að þessu sinni útskrifuðust 64 nemendur; 47 stúdentar, 8 sjúkraliðar, 6 brautskráðust af starfsbraut, 5 úr verknámi, tveir luku starfsnámi og einn meistaranámi. Auk þess luku þrír skiptinemar námi sínu í skólanum. Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur námsbrautum. Konur voru 38 og karlar 26. Alls komu 39 úr Reykjanesbæ, 10 úr Grindavík, 5 úr Sandgerði og Garði og tveir úr Vogum. Einn kom frá Hellissandi, Ólafsvík og Vopnafirði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Andri Þór Ólafsson nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Hanna María Kristjánsdóttir kennslustjóri flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Nýstúdentarnir Bjarki Brynjólfsson, Finnbjörn Benónýsson og Guðbjörg Guðmundsdóttir fluttu tónlist við athöfnina ásamt Högna Þorsteinssyni, kennara við Tónlistarskóla Reykjanebæjar.


Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Andri Þór Ólafsson, Bergur Theódórsson, Bjarki Rúnarsson, Ósk Jóhannesdóttir og Þröstur Leó Jóhannsson fengu viðurkenningu fyrir störf sín í þágu nemenda skólans. Bjarni Valur Agnarsson fékk verðlaun fyrir góðan námsárangur á starfsbraut og Helga Steindórsdóttir, Magnús Einarsson Smith og Telma Ýr Sigurðardóttir fengu viðurkenningu fyrir góðan árangur í vinnustaðanámi á sjúkraliðabraut. Arnþór Sigurðsson og Stefán Már Jónasson fengu gjöf frá Vélstjórafélagi Suðurnesja fyrir góðan árangur í vélstjórnargreinum. Þær Guðbjörg Guðmundsdóttir og Rakel Eva Ævarsdóttir fengu viðurkenningu fyrir árangur í fata- og textílgreinum og Íris Rut Jónsdóttir fyrir bókfærslu. Mary Sicat fékk gjöf frá Háskólanum í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum og hún fékk einnig viðurkenningar fyrir árangur sinn í frönsku og efnafræði. Bjarki Brynjólfsson fékk verðlaun frá Íslenska stærðfræðafélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði. Hann fékk einnig verðlaun frá skólanum fyrir frönsku, stærðfræði og efnafræði. Bjarki fékk einnig viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda og verðlaun frá danska sendiráðinu fyrir árangur sinn í dönsku. Þá fengu skiptinemarnir Anna Saeki, Eva Vandyck og Loic Worbe gjöf til minningar um veru sína í skólanum og á Íslandi.


Um árabil hefur Sparisjóðurinn í Keflavík veitt nemendum skólans viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og hefur Landsbankinn nú tekið við keflinu. Það var Einar Hannesson útibússtjóri sem afhenti viðurkenningarnar fyrir hönd Landsbankans. Að þessu sinni hlaut Bjarki Brynjólfsson viðurkenningar fyrir góðan árangur í tungumálum og fyrir árangur sinn í stærðfræði og raungreinum. Bjarki hlaut einnig viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og fékk að launum 100.000 kr. styrk frá Landsbankanum.


Guðbjörg Ingimundardóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þau Guðbjörg Jóhannesdóttir, Hanna Kristrún Jónsdóttir, Lárus Konráð Jóhannsson og Sóley Bjarnadóttir fengu öll 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í ræðumennsku og góðan árangur í lífsleikni. Sabína Sif Sævarsdóttir fékk 30.000 kr. styrk fyrir góðan árangur í söngkeppni framhaldsskólanna. Þá fékk nemendafélag skólans 100.000 kr. sem viðurkenningu fyrir öflugt og fjölbreytt félagslíf.


Foreldrafélag var stofnað við skólann síðastliðinn vetur. Við útskriftina afhenti félagið nemendafélagi skólans grill að verðmæti 166.000 til að nota á sal skólans.


Við lok athafnarinnar veitti skólameistari Axel Gísla Sigurbjörnssyni gullmerki FS en hann hefur starfað við skólann í 25 ár. Það hefur Kristján Ásmundsson skólameistari einnig gert og sæmdi Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari hann einnig gullmerki skólans.


Að lokum sleit Kristján Ásmundsson skólameistari vorönn 2011.


Texti og myndir af vef Fjölbrautaskóla Suðurnesja.