62 sagt upp hjá Fríhöfninni
60% starfsmanna Fríhafnarinnar hafa misst vinnuna frá upphafi Covid-19
Vegna mikils samdráttar í rekstri og óvissu vegna áhrifa Covid 19 heimsfaraldursins hefur Fríhöfnin ehf, dótturfélag Isavia ohf, sagt upp 62 starfsmönnum í dag. Frá því áhrifa faraldursins fór að gæta hér á landi hefur stöðugildum hjá fyrirtækinu fækkað um tæp 60% og gripið hefur verið til ýmissa annarra hagræðingaraðgerða sem snerta öll svið Fríhafnarinnar, segir í frétt frá fyrirtækinu
„Því miður er staðan þannig að fækkun starfsfólks er óhjákvæmileg,“ segir Þorgerður Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar. „Útlit er fyrir að ferðamenn sem koma til landsins verði afar fáir næstu misserin og erfitt að spá fyrir um hvenær fer að horfa til betri vegar. Við hjá Fríhöfninni höfum gripið til ýmissa hagræðingaraðgerða frá því að heimsfaraldurinn hófst en því miður er staðan og útlitið verra en spáð var á fyrstu stigum.“
Þorgerður segir að mikil óvissa sé framundan og staðan verði endurskoðuð reglulega.