6000 tonn af Gulldeplu í Helguvík
Alls eru um 32.000 tonn af Gulldeplu komin á land. Tæpum helmingi aflans hefur verið landað í Eyjum en einnig hefur um 6000 tonnum verið landað til bræðslu í Helguvík.
Útflutningsverðmæti Gulldepluafurða eru nú orðið um 800 milljónir króna að mati Stefáns Friðrikssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Stefán telur að reikna megi með 25-26 þúsund krónum fyrir tonnið af útfluttum afurðum en fiskurinn er unninn í mjöl og lýsi. Þetta kemur fram á vef  Landssambands íslenskra útvegsmanna.
Ný Gulldeplumið eru fundin djúpt suður af Vestmannaeyjum. Þar eru nú sjö skip að veiðum.



 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				