60 pólverjar á íbúafundi
Alls mættu um 60 pólverjar búsettir í Reykjanesbæ á íbúafund með Árna Sigfússyni bæjarstjóra, sem haldinn var í Bíósal Duushúsa í fyrrakvöld.
Á fundinum voru kynntar helstu áherslur Reykjanesbæjar í menntamálum, atvinnumálum og umhverfismálum en að auki var kynnt verkefnið Interculture Reykjanes.
Interculture Reykjanes er verkefnið sem hófst sl. haust og voru ráðnir til þess tveir pólskir verkefnastjórar. Markmið verkefnisins er að auðvelda aðlögun pólskra innflytjenda í samfélaginu en þeir eru nú 8% íbúa.
Einnig hefur Reykjanesbær ráðið kennsluráðgjafa fyrir börn innflytjenda í grunnskólum Reykjanesbæjar og mun hann m.a. samræma móttöku þessara barna og aðlögun að skólastarfi.
Kynnt voru helstu verkefni sem nú eru í vinnslu á vegum Interculture Reykjanes. Unnið er að gerð upplýsingakerfis um Reykjanes og líf í nýju samfélagi, fréttabréf er gefið út mánaðarlega og unnið er að þýðingu á vefsíðu bæjarins. Einnig er unnið að ýmsum verkefnum í samstarfi við t.d. Miðstð símenntunar á Suðurnesjum, stéttarfélög, bókasafn, skóla, 88 Húsið og lögreglu.
Ýmsar góðar ábendingar og fyrirspurnir komu fram sem sneru m.a. að Internetaðgangi, betri aðgangi að stéttarfélögum, umferðaröryggi, opnum leiksvæðum fyrir fjölskyldur, húsnæðismálum, atvinnu, samgöngum og pólskukennslu í grunnskólum.
Mynd/RNB: Frá fundinum.