60 milljónir í aðstoð á fyrstu þremur mánuðum ársins
Útgjöld fjölskyldu- og félagsmálaráðs Reykjanesbæjar til fjárhagsaðstoðar fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins nema 58 milljónum króna og útlit fyrir að frekar verði um aukna eftirspurn að ræða það sem eftir lifir árs. Fari svo fer ráðið fram úr fjárhagsáætlun, sem nemur 100 milljónum króna. Frá þessu var greint í Morgunblaðinu í gær en þetta kom fram á síðasta fundi fjölskyldu- og félagsmálaráðs Reykjanesbæjar.
Einnig að aukin eftirspurn eftir fjárhagsaðstoð hafi í för með sér aukið álag á starfsmenn, þar með talið þjónustuver Reykjanesbæjar, og um leið lélegri þjónustu við íbúana, sem margir séu ekki í aðstöðu til að þola langa bið eftir afgreiðslu sinna mála eða tíma hjá ráðgjafa.
Af þessum sökum telur fjölskyldu- og félagsmálaráð mikilvægt að ástandinu sé mætt tímabundið með því að auka stöðugildi félagsráðgjafa í stoðdeild. Verður því óskað eftir tímabundnu stöðugildi, í átta mánuði frá 1. maí 2012.
Aukin eftirspurn eftir fyrirframgreiðslu
Þá kom fram á fundinum að setja þurfi reglur um hvernig fara skuli með lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu. Kemur það til vegna aukinna eftirspurnar eftir slíkum lánum.
Samþykkt var að reglurnar verði á þá leið, að heimilt sé að veita þeim sem hafa haft tekjur við eða undir grunnfjárhæð í mánuðinum sem sótt er um og í mánuðinum á undan lán eða styrk til fyrirframgreiðslu húsaleigu.
Þá sé heimilt að veita lán til greiðslu tryggingagjalds vegna húsaleigu sem svarar tveggja mánaða leigu. Skilyrði er að viðkomandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu hjá bönkum eða lánastofnunum. Hámarksaðstoð verður 175 þúsund krónur.