Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

60 ár frá vígslu Sjúkrahússins í Keflavík
Frá skurðaðgerð á Sjúkrahúsinu í Keflavík.
Þriðjudagur 18. nóvember 2014 kl. 15:46

60 ár frá vígslu Sjúkrahússins í Keflavík

Í dag, hinn 18. nóvember, eru liðin rétt 60 ár frá því að Sjúkrahúsið í Keflavík var vígt formlega. Bygging sjúkrahúss á Suðurnesjum hafði verið í umræðunni um árabil áður en starfsemi hófst, en húsinu var ákveðinn staður árið 1943. Meðfylgjandi samantekt er af vef Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Guðjón Samúelsson, húsasmíðameistari ríkisins, teiknaði húsið og hófust framkvæmdir sumarið 1944. Sveinn Björnsson forseti lagði svo hornstein að byggingu sjúkrahússins í september það sama ár.

Byggingin var fjármögnuð með söfnun Rauðakrossdeildar Keflavíkur sem lagði til um 150.000 krónur til að hægt væri að byrja að steypa húsið upp. Framkvæmdir stöðvuðust svo vegna fjárskorts og var framgangurinn hægur næstu árin.

Sveitarfélögin sjö á Suðurnesjum tóku við uppbyggingu, og síðar rekstri sjúkrahússins og var fyrsti fundur sjúkrahússtjórnar haldinn árið 1947 og var Ragnar Guðleifsson kosinn formaður hennar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árið 1952 var ráðist í að ljúka við smíði byggingarinnar og taka sjúkrahúsið í notkun, eftir að samningar náðust um kaup á tækjabúnaði frá Þýskalandi. Þá var húsið sjálft næstum tilbúið til notkunar.

Allt var svo til reiðu hinn 18. nóvember 1954, eins og áður sagði, og síðdegis þann dag vígði séra Björn Jónsson, sóknarprestur í Keflavík, sjúkrahúsið. Þar voru rými fyrir 25 sjúklinga og tæki og búnaður var með fullkomnasta móti. Fyrsti framkvæmdastjóri sjúkrahússins var Guðmundur Á. Ingólfsson, sem starfaði fram til ársins 1970. Sjúkrahúslæknir var Bjarni Sigurðsson, hjúkrunarkonur voru tvær, þær Líney Sigurbjörnsdóttir og Margrét Árnadóttir, en auk þeirra störfuðu sjö manns á sjúkrahúsinu.

Bygging sjúkrahússins kostaði alls 2,2 milljónir króna og komu 150.000 krónur frá Rauðakrossdeildinni, eins og segir hér að ofan, og 165.000 krónur bárust að gjöf frá öðrum. Fjármögnun var að öðru leyti á höndum sveitarfélaganna með stuðningi ríkissjóðs.

sagahss1
Eitt af helstu hlutverkum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í gegnum tíðina hefur verið að sinna börnum og sængurkonum. Þessi mynd er úr safni HSS og er frá fyrstu starfsárum stofnunarinnar.

Fyrsti sjúklingurinn sem var lagður inn á Sjúkrahúsið í Keflavík var Sesselja M. Helgadóttir. María Bergmann var fyrsta sængurkonan sem ól barn á sjúkrahúsinu, en það var stúlka sem hlaut nafnið Karitas Bergmann.

Fyrsta fulla rekstrarárið, 1955, lögðust 391 sjúklingur inn á sjúkrahúsið, 36 börn, 128 karlar og 227 konur, og voru að meðaltali 24 sjúklingar inniliggjandi á dag. Þannig sést að sjúkrahúsið hafi vart annað svæðinu og í ljósi mikillar fólksfjölgunar á svæðinu þótti sýnt að viðbótar var þörf og fljótlega kom upp umræða um stækkun. Það var þó ekki fyrr en með samþykkt stjórnar árið 1971 að ákveðið var að ráðast í framkvæmdir og árið eftir barst framlag úr ríkissjóði til þeirra. Fyrsta skóflustungan að B-álmu sjúkrahússins var svo tekin árið 1975, af Valgerði Pétursdóttur, og var húsnæðið tekið í notkun árið 1981. Með því fjölgaði sjúkrarúmum um þrettán þannig að þau urðu alls 38. Við þau tímamót var sjúkrahúsinu skipt upp í tvær deildir, sjúkradeild og fæðinga- og kvensjúkdómadeild.

sagahss3

Valgerður Pétursdóttir matráðskona tekur hér fyrstu skóflustunguna að B-álmu Sjúkrahússins í Keflavík árið 1975. Með henni eru Jóhann Einvarðsson, þáverandi bæjastjóri í Keflavík og formaður stjórnar sjúkrahússins og síðar framkvæmdastjóri þess 1990-2002, og Eyjólfur Eysteinsson, framkvæmdastjóri sjúkrahússins á árunum 1970 - 1987.

Heilsugæsla opnaði að Sólvallagötu árið 1975, en fyrsta skóflustungan að nýrri heilsugæslustöð var tekin árið 1982 og hún var tekin í notkun vorið 1984. Heilsugæslustöðvar voru síðar settar á fót í Grindavík, Sandgerði, Garði og Vogum.

Árið 1992 var hjúkrunarheimilið Víðihlíð í Grindavík formlega opnað.

Í janúar 1994 var nafni sjúkrahússins breytt í Sjúkrahús Suðurnesja, en í upphafi árs 1998 voru sjúkrahúsið og heilsugæsla sameinuð undir merkjum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Fyrstu drög að næsta áfanga byggingarinnar, D-álmunnar, voru lögð fram á stjórnarfundi árið 1986, en það var ekki fyrr en síðla árs 1996 sem samningur var gerður við heilbrigðisráðuneytið um byggingu þriggja hæða viðbyggingar, 3000 fermetra að flatarmáli. Þar átti að vera legudeild með 26 sjúkrarúmum á annarri hæð hússins, en ákvörðun yrði síðar tekin um ráðstöfun þriðju hæðarinnar.

Í fyrstu var gert ráð fyrir að í D-álmunni yrði hjúkrunardeild fyrir aldraða, en stjórn sjúkrahússins ákvað síðar, í ljósi breyttra hugmynda um öldrunarþjónustu, að nýta álmuna sem dagdeild og almenna sjúkradeild.

Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðisráðherra tók fyrstu skóflustunguna að byggingunni árið 1998 og var fyrsti áfangi hennar tekinn í notkun undir lok árs 2001. Árið 2004 var svo opnuð ný kapella, nýuppgert anddyri og endurbætt slysa- og bráðamóttaka.

Nýjar og glæsilegar skurðstofur voru teknar í notkun á HSS árið 2008 en skurðþjónusta var lögð af á stofnuninni árið 2010.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar í sögu heilbrigðismála síðustu 60 árin. Íbúum Suðurnesja hefur fjölgað stöðugt í gegnum árin. Þeir voru samtals 5093 árið 1950, á meðan byggingu sjúkrahússins stóð, en nú þegar HSS fagnar 60 ára afmæli sínu eru íbúar rétt tæplega 22.000. Á sama tíma hafa umsvif stofnunarinnar aukist, og má hér að neðan sjá nokkrar lykiltölur úr rekstri HSS á árinu 2013:
 

  • Innlagnir á sjúkrahúsið voru 1.104.
  • Legudagar á sjúkrahúsinu voru 18.175.
  • Heildarfjöldi viðtala á heilsugæslu var 67.242.
  • Heildarfjöldi vitjana á heilsugæslu var 26.290.
  • Heildarfjöldi slysa sem HSS sinnti var 3.973.
  • Fjöldi koma í meðgönguvernd var 2.718.
  • Á ljósmæðravakt fæddust 84 börn.
  • Fjöldi vitjana í heimahjúkrun voru 25.522.
  • Fjöldi skjólstæðinga í heimahjúkrun voru 383.
  • Framkvæmdar voru 93.532 blóð- og þvagrannsóknir.
  • Framkvæmdar voru 6.042 röntgen- og tölvusneiðmyndarannsóknir.
  • Starfsmenn voru alls 379 á launaskrá í 222 stöðugildum (240 starfsmenn fastráðnir að meðaltali).

Byggt á óútgefinni samantekt Gylfa Guðmundssonar.