6 mánaða dómur fyrir hættulega líkamsárás

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag tæplega tvítugan karlmann í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir sérlega hættulega líkamsárás er hann sló annan mann með járn- eða álröri í höfuðið, segir í dómnum. Árásin átti sér stað á bílaplani í Grindavík fyrir um ári síðan. Sá sem varð fyrir árásinni fékk skurð á ennið sem þurfti að sauma.
Árásarmaðurinn játaði sök og var hann jafnframt dæmdur til að greiða fórnarlambinu 376 þúsund krónur í bætur auk sakarkostnaðar.


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				