6,25 milljón farþegar um Keflavíkurflugvöll árið 2016
– Áhersla á afkastaaukningu á Keflavíkurflugvelli
Um 28,4% fleiri farþegar munu fara um Keflavíkurflugvöll á næsta ári en þessu, sem þýðir að heildarfarþegafjöldi verður um 6,25 milljónir á árinu 2016. Þetta kemur fram í nýrri farþegaspá Isavia. Útlit er fyrir að alls fari um 4,9 milljónir farþega um völlinn á þessu ári, sem er aukning um 25,8% frá árinu 2014.
Aukin tíðni, fleiri flugfélög, aukin samkeppni
Flest flugfélög sem fyrir eru munu auka tíðni sína á næsta ári, eða bæta við áfangastöðum. Auk þess hefja nokkur ný flugfélög flug á árinu 2016. Sumarið 2016 munu því 25 flugfélög fljúga til 80 áfangastaða frá Keflavíkurflugvelli.
Íslendingar ferðast meira
Í farþegaspánni er gert ráð fyrir um 10% fleiri íslenskum ferðamönnum en árið 2015. Gangi þessi spá eftir munu Íslendingar vera um 24,3% af heildarfjöldanum. Erlendum ferðamönnum hefur það sem af er þessu ári fjölgað um tæp 30% en í spánni fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir 22,2% fjölgun þeirra.
Erlendir ferðamenn verða því samkvæmt spánni um 1.540 þúsund eða um 75,7% af farþegum Keflavíkurflugvallar á næsta ári. Til samanburðar var þetta hlutfall 64,4% árið 2012.
Skiptifarþegum fjölgar
Skiptifarþegum sem millilenda á Keflavíkurflugvelli á leið sinni á milli Evrópu og Norður-Ameríku fjölgar hratt og gert er ráð fyrir að þeir verði um 35% allra farþega árið 2016. Árið 2015 lítur út fyrir að hlutfall skiptifarþega verði 30,7%.
Aukin afkastageta flugstöðvarinnar
Nú vinnur starfsfólk Isavia að því að tryggja sem best þjónustustig yfir háannatíma á Keflavíkurflugvelli næsta sumar. Þær aðgerðir snúast um að klára yfirstandandi stækkanir flugstöðvarinnar, auka afköst til þess að nýta þá fermetra sem fyrir eru betur, auka sjálfvirkni á öllum stigum ferðalagsins um flugstöðina og tryggja að mönnun í öryggisleit og öðrum þjónustustörfum sé nægilega mikil. Næsta sumar verður flugstöðvarbyggingin um 16% stærri en hún var í byrjun þessa árs, eða um 65.000 fermetrar. Að auki verða opnuð þrjú ný flugvélastæði.
Um farþegaspána
Farþegaspá Isavia er unnin út frá gögnum flugfélaga um sætaframboð og áætluð er ákveðin sætanýting. Þannig fæst nokkuð góð áætlun miðað við þær forsendur sem uppi eru hverju sinni. Spáin er samtala komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega um flugvöllinn. Hún telur því erlenda og innlenda ferðamenn bæði við komu og brottför auk þeirra sem einungis stoppa á flugvellinum til þess að ferðast áfram til annars lands.
Grétar Már Garðarsson
Guðmundur Daði Rúnarsson í pontu á fundinum í morgun.