560 m.kr. niðurskurður frá fyrstu áætlunum
Heildartekjur Reykjanesbæjar eru áætlaðar rúmir 6,9 milljarðar í nýrri fjárhagsáætlun næsta árs. Ekki er gert ráð fyrir rekstrarafgangi á árinu. Um er að ræða 560 milljón króna niðurskurð frá fyrstu áætlunum, að því er fram kemur í bókun meirihluta sjálfstæðismanna, sem lögð fram fram á bæjarstórnarfundi í vikunni við seinni umræðu fjárhagsáætlunarinnar.
Lögð er áhersla á að verja grunnþjónustu bæjarins, sérstaklega grunnskóla, leikskóla og félagslega þjónustu. Framlög til þessara verkefna hækka á milli ára um 350 milljónir króna. Bæjarsjóður tekur á sig aukinn kostnað á næsta ári með því að halda gjaldskrá að mestu óbreyttri næsta ár, að því er fram kemur í bókuninni.
Gert er ráð fyrir óbreyttri gjaldskrá vegna eftirtalinnar þjónustu á næsta ári: Leikskólar, þar með talin matarþjónusta, skólamatur í grunnskólum, heimaþjónusta, dagdvöl aldraða, félagsstarf aldraða og bókasafn. Áfram verður frítt í sund fyrir börn og unglinga og almenningssamgöngur verða áfram ókeypis, svo og aðgangur á söfn og listviðburði á vegum Reykjanesbæjar.
Dregið verður úr niðurgreiðslum til frístundaskóla um þriðjung, sem þýðir hækkun á gjaldskrá frístundaskóla. Einnig hækkar gjaldskrá í Tónlistarskóla.
Í undirbúningi eru breytingar á fasteignagjöldum eldri borgara þannig að afsláttur verði tekjutengdur. Þetta þýðir að tekjulægri ellilífeyrisþegar munu fá aukinn afslátt frá því sem verið hefur en þeir tekjuhærri fá minni afslátt. Heildartekjur vegna þessa eru áætlaðar svipaðar og í fyrra.
Sjá bókunina í heild sinni hér: